138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar til hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessa skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál. Eins og ég vék að í stuttu andsvari áðan tel ég að það sé til mikilla bóta fyrir þingstörfin að þessi skýrsla, líkt og skýrsla umhverfisráðherra og ég hygg að við höfum fleiri slík dæmi, sé reglulegur þáttur í þingstörfunum.

Um störf í utanríkisráðuneytinu undanfarið ár, sem fjallað er um í skýrslunni, verður auðvitað ekki annað sagt en að gríðarlega mikið hefur mætt á ráðuneyti hæstv. ráðherra og þeim starfsmönnum sem þar eru. Ég tel að starfsfólk ráðuneytisins hafi á köflum unnið mikið afrek vegna þess að á tímabilinu hafa verið uppi afar erfið alþjóðamál. Það breytir því þó ekki að stefnumörkunin er pólitísk og hefur verið nýrrar ríkisstjórnar, stórar ákvarðanir hafa verið teknar sem starfsmenn ráðuneytisins bera enga ábyrgð á heldur fylgja þeim eingöngu eftir.

Í þessari skýrslu, sem telur tæpar 100 blaðsíður, er víða komið við og ekki er tækifæri til þess að rekja það allt í tiltölulega stuttu máli. Ég ætla þó að staldra við nokkra þætti og mig langar til að byrja á Icesave-málinu. Eins og fram kemur í skýrslunni hefur utanríkisráðuneytið að sjálfsögðu haft aðkomu að því máli nánast allan tímann. Það er mjög merkilegt að skýrslan fari ekki yfir það með hvaða hætti núverandi ríkisstjórn ákvað að ljúka því máli með samningi sem síðan var felldur af þjóðinni fyrir skömmu. Sá samningur var auðvitað ekkert annað en hræðileg og hrapalleg mistök í samskiptum Íslands við viðkomandi þjóðir, hrikaleg mistök. Af því að mikið er gert úr samráði í skýrslunni vil ég rifja upp að ekkert samráð var haft við þingið um það risastóra mál. Það var ekki borið undir þingflokka í stjórnarandstöðunni hvort menn vildu styðja við þá niðurstöðu sem þannig var fengin. Vilji menn gera mikið úr samráði skulu menn tína til það sem mestu máli skiptir, eins og þann risavaxna ómögulega samning.

Við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins lýstum því yfir áður en endanlega var skrifað undir, eftir að hafa einungis fengið örstutta kynningu á málinu, að við mundum ekki styðja það. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins gaf út sérstaka ályktun um að sú niðurstaða sem þar var í burðarliðnum væri í algeru ósamræmi við hin sameiginlegu viðmið og það upplegg sem við töldum rétt að starfa eftir. Þessu verður að halda til haga í umræðu um utanríkismál og skýrslu utanríkisráðherra um það efni. Auðvitað er þó skiljanlegt að menn vilji kannski gera lítið úr því þar sem þjóðin hefur í millitíðinni kveðið upp sinn dóm yfir þeim samningi sem þar var gerður.

Í þessari skýrslu er komið aðeins inn á það að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hafi verið með ýmsar athugasemdir vegna neyðarlaganna á Íslandi og annarra þátta sem snerta stöðu innstæðueigenda í útibúum íslenskra banka og ólíka meðferð íslenskra innstæðueigenda og þeirra sem áttu innstæður í útibúunum. Við höfum fengið að fylgjast með því í utanríkismálanefnd að það hafa verið uppi sjónarmið hjá Eftirlitsstofnuninni um hina ólíku þætti. Þessi samskipti hafa gengið, eins og ég hef skilið það, alveg fram á síðustu daga. Það hefði verið fróðlegt að fá nánari útlistun á því frá hæstv. utanríkisráðherra hver staða þeirra mála er vegna þess að mér hefur verið tjáð að Eftirlitsstofnunin sé jafnvel að vígbúa sig fyrir að grípa til aðgerða gegn okkur Íslendingum.

Hæstv. utanríkisráðherra orðaði það þannig í vikunni að nú væri að opnast gluggi til að hefja að nýju viðræður um Icesave-málið. Mér finnst þetta kalla á frekari skýringar. Ég hefði viljað sjá hæstv. utanríkisráðherra fara nánar yfir það í hverju hann teldi tækifærin liggja sem væru að opnast þessa dagana. Við hljótum að horfa til þess hvað hefur gerst frá því að síðasta samkomulag var klárað. Stjórnarandstaðan hefur átt aðild að endurnýjuðu viðræðuferli. Við höfum ekki dregið okkur út úr því en við höfum lagt alla áherslu á að ef ganga ætti frá einhverju samkomulagi við þessi tvö ríki þyrfti það að vera gert á pólitískum forsendum þar sem sanngirni yrði höfð að leiðarljósi. Við höfum ávallt haldið til haga okkar lagalegu stöðu og fram til þessa dags gert áskilnað um að fá skorið úr um okkar lagalegu skuldbindingar og að það mundi á endanum hafa áhrif á samningsniðurstöðuna. Þetta hefur leitt til þess að engir samningar hafa tekist. Ég hef ekki heyrt annað af störfum mínum í utanríkismálanefnd og þessu samráði en að í Hollandi séu línurnar meira eða minna óbreyttar og þar geri menn jafnvel ráð fyrir því að ný ríkisstjórn, sem líklega tekur við þar, ætli að sýna okkur Íslendingum enn meiri hörku en sú sem starfað hefur fram á þennan dag. Í Bretlandi kann að vera annað uppi á teningnum. Við í utanríkismálanefnd fórum til Bretlands fyrir skömmu og ræddum þar um Icesave-málið. Vandinn liggur í því að þessi tvö ríki telja að við Íslendingar höfum ekki innleitt tilskipunina með réttum hætti eða að við viðurkennum ekki efnislegt innihald tilskipunarinnar, sem sagt um að íslenska ríkinu beri að veita einhvers konar tryggingu fyrir greiðslugetu innstæðutryggingarsjóðsins. Okkar sjónarmið í stjórnarandstöðunni, og Sjálfstæðisflokknum sérstaklega, hefur verið að engin slík lagaskylda væri til staðar á grundvelli tilskipunarinnar.

Nú höfum við fengið skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Margir vildu meina að við mættum ekki halda þjóðaratkvæðagreiðsluna fyrr en rannsóknarskýrslan kæmi út. Tafir á því að hún kæmi út leiddu á endanum til þess að það var óraunhæft að fresta þjóðaratkvæðagreiðslunni meira eða yfir höfuð að breyta dagsetningunni sem þegar hafði verið ákveðin. Nú er skýrslan komin út og hún geymir upplýsingar um einmitt þessi atriði sem Bretar og Hollendingar hafa haldið á lofti. Í fyrsta lagi er það niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að við Íslendingar höfum innleitt tilskipunina á réttan hátt og í öðru lagi að hvergi á hinu Evrópska efnahagssvæði sé að finna vísbendingar um að viðkomandi ríki telji sig hafa skyldu til að veita ríkisábyrgð fyrir skuldbindingum innstæðutryggingarkerfanna. Hvergi er neinn lagabókstafur um það í einu einasta ríki og af lestri skýrslunnar er augljóst að skýrsluhöfundar eru þeirrar skoðunar að engin slík ríkisábyrgð sé til staðar. Þetta hlýtur að hafa áhrif á framhald viðræðnanna og við hljótum þess vegna að kalla eftir því frá hæstv. utanríkisráðherra að hann skýri nánar hvað hann á við, eftir útkomu skýrslunnar og eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna, þegar hann segir að nú sé tækifæri til að ljúka Icesave-samningunum. Er sem sagt átt við að nú sé tækifæri til að ljúka samningunum með mun betri niðurstöðu en áður hefur verið uppi á borðum?

Hæstv. ráðherra notaði drjúgan tíma af ræðu sinni í að fjalla um Evrópusambandsmálið og það ætti ekki að koma neinum á óvart því það er risastórt mál. Mig langar til að nota þetta tækifæri til að rifja aðeins upp okkar málstað í því máli þegar það var hér til umræðu á þinginu síðasta sumar, af því að mjög hefur verið talað um lýðræði og rétt þjóðarinnar til að koma að ákvarðanatöku um þessi efni. Okkar skoðun var þessi: Það er rangt að leggja af stað í aðildarviðræðuferli ef ekki er fyrir því breið pólitísk forusta. Það er líka rangt að fara af stað í aðildarviðræður ef þjóðin er ekki með og ekki hefur mælst breiður stuðningur við aðildarumsóknina hjá þjóðinni í góðan tíma. Þetta er reynsla annarra þjóða. Menn eins og Uffe Ellemann-Jensen, reyndur þingmaður frá Danmörku, hafa haldið slíkum sjónarmiðum á lofti. Þess vegna vorum við mótfallin því að umsóknin yrði lögð fram og sögðum: Gerum þetta ekki nema fyrst verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem þessi grundvallarákvörðun er tekin. Það voru síðan stjórnarflokkarnir sem höfnuðu þeirri lýðræðislegu leið og það voru stjórnarflokkarnir sem ákváðu að fara með málið í þennan farveg.

Í millitíðinni hefur molnað mjög úr pólitískri forustu fyrir málinu og mér er orðið ljóst að margir þingmenn Vinstri grænna greiddu greinilega atkvæði með málinu sem einhvers konar hluta af málamyndasamkomulagi milli stjórnarflokkanna. Það fylgdi ekkert hjarta og enginn hugur þeirri ákvörðun að senda umsóknina af stað. Þegar ég vék að því í andsvari áðan að við í utanríkismálanefnd værum oft í hálfvandræðalegri stöðu þegar við fengjum heimsóknir frá sendinefndum hinna þjóðþinganna átti ég einfaldlega við að á þeim fundum erum við minnt á að við höfum sett af stað ferli í öllum ríkjunum 27, í hverju og einu þeirra. Þannig komu t.d. þingmenn Evrópunefndar þýska þjóðþingsins hingað um daginn og greindu okkur frá því að þeir væru að vinna að aðildarumsókn Íslendinga. Það kostaði auðvitað vinnu fyrir þýska þjóðþingið og þýsku Evrópunefndina. Nefndin mundi senda aðildarumsókn Íslands til umsagnar til annarra nefnda þýska þjóðþingsins. Að lokum yrði síðan tekin saman einhver niðurstaða þar sem mælt yrði með því við þýsku ríkisstjórnina hvað ætti að gera, ríkisstjórnin þyrfti síðan að funda um málið og á endanum væri farið með niðurstöðu hennar inn í ráðherraráðið sem líklega síðar á þessu ári fjallar um spurninguna um hvort hefja eigi aðildarviðræður við Ísland. Þetta mun gerast hjá hverju og einu þessara 27 Evrópusambandsþjóðþinga.

Þess vegna er ekki nema eðlilegt þegar við fáum þessar heimsóknir að þingmennirnir spyrji spurninga á borð við þær sem fulltrúar þýska þjóðþingsins spurðu okkur á fundi í utanríkismálanefnd: Er ekki örugglega einbeittur vilji þingsins að ljúka samningum? Er ekki alveg klárt að það sé mikil og skýr pólitísk forusta fyrir ferlinu öllu saman? Hvernig eru skoðanakannanir í dag? Hvað segja þær um vilja þjóðarinnar? Hverjar eru líkurnar á því að málið verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar upp er staðið? Er þetta kannski bara þannig, eins og mér fannst koma fram í máli hæstv. utanríkisráðherra, að þetta byggist allt á því að við fáum frábæran samning? Stóri misskilningurinn í Evrópusambandsmálinu er að við getum ekki lagt af stað í þetta ferli í þeirri von að fá frábæran samning. Menn verða að vera sáttir við Evrópusambandið eins og það er. Þegar þessir þingmenn koma hingað og ræða við okkur um Evrópusambandsmálin hvarflar auðvitað ekki að nokkrum manni að lofa okkur varanlegum undanþágum frá stórum eða mikilvægum málaflokkum. Það hefur ekki komið fram í máli nokkurs einasta gests okkar. Á slíkum grundvallarmisskilningi hefur málið verið keyrt áfram, á loforðinu um að okkur standi eitthvað stórkostlegt til boða. Á endanum vitum við það sem hér erum að þetta varð að einhvers konar málamiðlun við stjórnarmyndunarviðræðurnar.

Hafandi sagt allt þetta vil ég þó taka fram að formlega séð er þetta enn þá allt í lagi. Formlega er Sjálfstæðisflokkurinn þátttakandi í ferlinu. Formlega höfum við sem sagt búið til umgjörð til að þingið geti fylgst vel með og veitt framkvæmdarvaldinu aðhald og ég er í sjálfu sér alveg sáttur við það upplegg sem ráðherrann hefur kynnt varðandi hvaða tækifæri þingið fær til að fylgjast með ferlinu. Ég treysti að sjálfsögðu engum betur en mínum þingflokki, mínu fólki og okkar fulltrúum, til að sinna þeirri skyldu en ég hef miklar áhyggjur af ferlinu öllu saman. Ég held að það sé smám saman að koma í ljós sem við sjálfstæðismenn sögðum í umræðu um þetta mál á miðju síðasta ári: Það á ekki að standa svona að stórri og viðamikilli ákvörðun eins og ríkisstjórnin leggur til.

Ég hefði gjarnan viljað koma inn á fleiri þætti í máli mínu en tíminn er að renna frá mér. Mig langar til að segja varðandi nýja öryggis- og varnarstefnu að það kemur mér ekkert á óvart að ráðherrann vilji leita að víðtækri sátt á þinginu og draga fleiri flokka að því máli vegna þess að auðvitað blasir við okkur öllum að ekki getur Samfylkingin náð neinni niðurstöðu í samstarfi við Vinstri græna um nýja öryggis- og varnarstefnu. Þeir eru sér á báti þannig að það liggur í hlutarins eðli að ef koma á með nýja öryggis- og varnarmálastefnu hlýtur að þurfa að draga aðra þingflokka að því máli. Við munum taka þátt í því og ég fagna í sjálfu sér tillögunni sem ráðherrann kom með en ég verð að harma þann hringlandahátt sem hefur verið í tíð samfylkingarráðherranna í utanríkisráðuneytinu í varnarmálum. Þetta er ekkert annað en hringlandaháttur. Það voru þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar sem vildu Varnarmálastofnunina. Við í Sjálfstæðisflokknum höfðum efasemdir og frumvarpinu var breytt töluvert mikið. Það var sagt að búa þyrfti til sérstaka stofnun og það þyrfti að búa til sérstaka umgjörð um samskiptin við NATO, allt saman fyrir tilstilli og að frumkvæði ráðherra Samfylkingarinnar. Nú koma ráðherrar þessa sama flokks með tillögu um að leggja stofnunina niður. (Forseti hringir.) Því hefur ekki verið svarað hvað á að taka við þannig að mér finnst vera mikill hringlandaháttur í pólitískri stefnumörkun varðandi þessa þætti. (Forseti hringir.) Ég verð því miður að ljúka máli mínu hér og nú.