138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í mínum huga er algerlega skýrt hvert er umboð ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Alþingi samþykkti að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Skoðanir voru skiptar innan stjórnmálaflokkanna. Í öllum stjórnmálaflokkum, nema Samfylkingunni, voru einstaklingar sem ýmist greiddu atkvæði með tillögunni, á móti eða sátu hjá. Það er staðreynd málsins. Umboðið er auðvitað algerlega skýrt. Alþingi hefur falið ríkisstjórninni þetta verkefni og hún er að vinna það.

Hvað afstöðu okkar snertir þá fór ég yfir það hvað við höfðum samþykkt í þessu efni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að við göngum þetta ferli á enda, að við ljúkum viðræðum og höfum á borðinu nákvæmlega hvað getur falist í Evrópusambandsaðild og þjóðin taki afstöðu til þess. Mér er alveg ljóst að það eru ýmsir í mínum flokki sem eru ósammála mér í þessu efni. Það er ekkert athugavert við það að skoðanir eða nálgun á málinu kunni að vera mismunandi eftir einstaklingum innan sama flokks. Ég veit að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir kannast við það úr eigin flokki.