138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það felist mikill misskilningur, eða kannski ætti ég að segja hálfsannleikur, í þeim fullyrðingum sem oft hafa verið uppi í þessari umræðu, um að við séum komin inn í sérstakt aðlögunarferli sem geri þá kröfu að við höfum tekið upp stofnanakerfi Evrópusambandsins áður en kæmi til aðildar, ef þjóðin kysi að fara þá leið. Ég tel að mikill hálfsannleikur felist í þessu. Menn ættu að temja sér að hafa staðreyndir á borðinu hvað þetta snertir.

Við gerum okkur alveg grein fyrir því að það voru settar sérstakar reglur þegar farið var í aðildarviðræður við ýmis Austur-Evrópuríki, sem ekki höfðu neinn stofnanastrúktúr að vinna með. Það eru aðstæður sem alls ekki eiga við hér á landi. Það hvernig hugsanlega þurfi að eiga við stofnanastrúktúrinn hér á landi tel ég að sé atriði sem fjallað verður um í viðræðum við Evrópusambandið. Það mál sé þar af leiðandi í ágætum farvegi. Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af þessu, hv. þingmaður.