138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil halda því fram að Alþingi hafi ekki verið meðvitað um þann kostnað sem þetta ferli gæti haft í för með sér. Íslenskir skattgreiðendur eru alls ekki meðvitaðir um þann kostnað vegna þess að það liggja ekki fyrir nægilega góðar áætlanir, a.m.k. ekki þær sem hæstv. ráðherra kýs að halda á lofti.

Varðandi mótframlögin er það nú svo að í skýrslu utanríkisráðherra á bls. 37 — ég hef því miður ekki tíma til að lesa það upp en hvet hv. þingmann til að gera það — er sérstaklega talað um 6 milljarða sem hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni og eru háðir ákveðnu mótframlagi. Því er ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að það verði að færa þá 6 milljarða sem hæstv. ráðherra nefndi og reiknaði sér til tekna hér áðan líka út af gjaldahliðinni. Hv. þingmaður ætti að kynna sér það.

Þá spyr ég aftur: Er forsvaranlegt að verja allt að 7 milljörðum kr. í þetta? Einnig má kannski bæta við: Er hv. þingmaður sammála hæstv. ráðherra um að það verði nettóhagnaður af þessu öllu saman?