138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:21]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að vera svona afdráttarlaus í sínu svari. Ég vil líka lýsa því yfir að ég er algjörlega sammála hv. þingmanni. Það er mín skoðun að almenningur á Íslandi eigi að fá að kveða upp úr um það hvort samningsniðurstaðan sé góð eða ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Væntanlega mun því allur þessi skotgrafahernaður, sem menn virðast ekki geta komist alveg upp úr, hafa lítið upp á sig ef mál þróast eins og sú er hér stendur og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson telja best.

Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir íslenska þjóð að skoða þetta mál og taka afstöðu til þess en verð að segja að mér finnst svolítið skrýtið á hvaða stig umræðan fer þegar þingmenn fara í hana. Það er nánast eins og við séum að ræða trúarbrögð. Ég tel að við þurfum að vera miklu hófstilltari í þessari umræðu (Forseti hringir.) og leyfa þjóðinni síðan að taka upplýsta ákvörðun um niðurstöðu aðildarviðræðnanna.