138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:22]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir viðbrögð hennar. Við erum bersýnilega alveg sammála í þessu efni. Ég hef aldrei nálgast Evrópusambandsmálið út frá fastri sannfæringu um að Evrópusambandið sé vont eða gott. Ég hef metið okkar hagsmuni til þessa þannig að þeim væri best borgið utan Evrópusambandsins og ég er enn þá þeirrar skoðunar. Ég vil þó leyfa mér, skulum við segja, þann munað að endurskoða afstöðu mína ef ég tel að niðurstaðan úr viðræðunum gefi tilefni til þess. Ég er ekkert viss um að svo verði, alls ekki, en það er hluti af lýðræðislegri umræðu. Þetta mál þarf að sjálfsögðu að fá að þroskast. Þetta varðar framtíð íslensku þjóðarinnar og komandi kynslóða og við verðum, eins og hv. þingmaður nefndi, að komast upp úr skotgröfum fastrar orðræðu og í að ræðast við um þetta mál á grundvelli röksemda (Forseti hringir.) og framtíðarhagsmuna.