138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski fegurðin við lífið hvað fólk er ólíkt og hefur ólíkar skoðanir og ólíka sýn og allt það og það er kannski vandinn við þessa umsókn að hún setur ákveðinn fleyg á milli fólks í samfélaginu þegar við þurfum virkilega að standa saman. Við erum í gríðarlegum vanda og mér finnst ofboðslega mikilvægt að við getum einbeitt okkur að því hvernig við komum okkur úr honum saman. Mér finnst jafnframt mjög mikilvægt að þjóðin hafi eitthvað um það að segja hvort hún vilji vera í þessu ferli eða ekki, því mér sýnist á öllu að hún sé mjög andsnúin því að fara í þetta ferli núna og ef okkur er verulega umhugað um að koma okkur inn í bandalagið, þá kannski eyðileggur þetta fyrir. Það getur hreinlega eyðilagt draum þeirra sem vilja að við göngum í Evrópusambandið ef farið er fram af svo miklum hraða nú.

Svo er það líka að þótt við séum í bandalagi við aðrar þjóðir — ef við tökum dæmi þá tókum við EES-löggjöfina upp en bættum ekki nauðsynlegri styrkingu við hana með tilliti til smæðar okkar til að hún yrði okkur í raun og veru til góða. Löggjöfin kom okkur í miklu meiri vandræði en við hefðum nokkurn tímann lent í ef við hefðum ekki verið í því alþjóðlega samstarfi. Þannig að það er margt að skoða í þessu.