138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:36]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi, eins og aðrir hafa gert, þakka fyrir skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Þetta er nokkuð heildstæð skýrsla og ágætt að taka nokkra umræðu um utanríkismál nú á vordögum. Ég tók eftir því að hæstv. utanríkisráðherra nýtti mestan tíma sinn í að ræða um Evrópusambandsaðildarumsóknina og er það eðlilegt, af því það er auðvitað mjög stórt mál og hefur verið mjög umdeilt og mikið í umræðunni. Í máli hæstv. ráðherra og formanns utanríkismálanefndar kom fram að samstarf á milli utanríkismálanefndar og hæstv. ráðherra hefur verið aukið. Ég held að það sé rétt. Þó að ég sé ekki í utanríkismálanefnd núna hef ég skynjað að meiri samvinna er á milli ráðuneytis, hæstv. ráðherra og þings. Ég held að það sé mjög æskilegt og til bóta þannig að ég vil byrja á að fagna því.

Að sjálfsögðu var nokkur aðdragandi að umsókn okkar að Evrópusambandinu. Mig langar til að gera því nokkur skil í ræðu minni af því að þetta er mjög mikið mál, flókið og vandasamt og flokkarnir eiga flestir nokkuð bágt í því. Í stjórnarsáttmála Vinstri grænna og Samfylkingar var sett inn ákvæði um að það bæri að sækja um aðild að Evrópusambandinu, en samt berja margir þingmenn mikið á Vinstri grænum. Þetta er eigi að síður í stjórnarsáttmálanum og yfirleitt reyna flokkar að koma því í framkvæmd sem stendur í honum þannig að mjög eðlilegt væri að við mundum taka á því máli. Það er líka í stjórnarsáttmálanum að það eigi að sameina ráðuneyti, sem er líka mál sem er stjórnarflokkunum erfitt en verður væntanlega gert fyrst það er í stjórnarsáttmálanum.

Við fórum í atkvæðagreiðslu um þetta mál síðasta sumar og þá var samþykkt með litlum mun, það var nánast 50:50, þingið var eiginlega klofið í afstöðunni til aðildarumsóknarinnar, að sækja um aðild, þannig að það varð niðurstaðan. En þingið klofnaði og það gerðu líka flokkar. Framsóknarflokkurinn klofnaði til dæmis, þrír hv. þingmenn greiddu atkvæði með aðildarumsókn, sú er hér stendur og hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson og Birkir Jón Jónsson. Aðrir þingmenn flokksins greiddu atkvæði gegn aðildarumsókninni.

Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði líka. Þar greiddu flestir atkvæði gegn aðildarumsókn en ég vil nefna það, fyrst hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir er nú í forsetastóli, að hv. þingmaður greiddi atkvæði með aðildarumsókn og mér þótti það nokkuð djarft og gott hjá hv. þingmanni, svo ég segi það nú bara beint úr ræðustóli, (Utanrrh.: Þú veist hver er pabbi hennar.) að standa þar með sannfæringu sinni, sérstaklega í ljósi þess að talsvert mikið hafði gengið á í Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Ég veit ekki hvort menn muna langt aftur í tímann nú þegar svo margt er að gerast í samfélaginu, það er kannski erfitt að rifja upp en það er samt alls ekki svo langt síðan, ég held að það séu bara tvö ár síðan svokölluð tvíhöfðanefnd var sett upp, en sú nefnd átti að skoða tengsl okkar við Evrópusambandið. Hverjir voru formenn tvíhöfðanefndarinnar? Af hverju var nefndin tvíhöfða? Það voru hv. þingmenn Illugi Gunnarsson og Ágúst Ólafur Ágústsson. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin voru þá í ríkisstjórn og gátu ekki komið sér saman um einn formann í þeirri nefnd, þeir urðu að vera tveir, þess vegna var þetta svokölluð tvíhöfðanefnd. Það að tveir formenn voru í nefndinni sýndi kannski einhvern trúnaðarbrest á milli flokka en líka hvað málið var erfitt. (Utanrrh.: Hvaða eiturörvar eru þetta?)

Síðan er ágætt líka að rifja upp grein í Fréttablaðinu sem hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson skrifuðu. Í þeirri grein töldu þeir að það kæmi til greina að sækja um aðild að Evrópusambandinu þrátt fyrir að landsfundur Sjálfstæðisflokksins gæti hugsanlega komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan ESB en innan. Þá skrifuðu þessir ágætu hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson að það kæmi samt til greina að sækja um aðild að ESB. Nokkrar umræður urðu um það hér og ég man t.d. eftir því að hv. þm. Birgi Ármannssyni, sem er nú í sama flokki, þótti þetta ekki snjallt, fannst að það ætti ekki að sækja um aðild að klúbbi sem menn vildu ekki vera meðlimir í o.s.frv., sem er auðvitað ákveðin röksemdafærsla. En það hafa sem sagt margir flokkar átt nokkuð bágt í þessu ESB-máli, virðulegur forseti.

Nú sjáum við líka hvernig Vinstri grænir engjast, þeir hafa í stjórnarsáttmála samið um að sækja um aðild en innan raða þeirra eru forustumenn í Heimssýn, sem er félagsskapur sem vinnur gegn aðild Íslands að ESB. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason er formaður Heimssýnar þannig að þetta er allt saman nokkuð snúið, virðulegur forseti.

Framsóknarmenn eru sem sagt líka klofnir í þessu máli, en þeir hafa skoðað það talsvert lengi og haft forustu um það í íslenska flokkakerfinu mundi ég segja. Við höfum farið í ítarlega vinnu, gert skýrslu um það hvernig ætti að halda á hagsmunum okkar í hugsanlegum aðildarviðræðum, bæði gagnvart sjávarútvegi og landbúnaði, og við gerðum líka skýrslu um gjaldmiðilsmál. Þannig að við höfum skoðað þetta nokkuð vel. Framsóknarmenn forgangsröðuðu líka einu sinni hvað væri réttast að gera í Evrópumálunum. Þrjú atriði voru tilgreind og þeim var forgangsraðað. Fyrst var það að standa vörð um EES-samninginn. Það var aðalviljinn. Númer tvö var að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ef hitt gengi ekki upp þá átti að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Númer þrjú, sísti kosturinn að mati framsóknarmanna, var tvíhliða samningur við Evrópusambandið. Þetta þótti mér svolítið merkilegt á sínum tíma af því þá voru eins og nú öfl innan flokksins sem voru andsnúin Evrópusambandsaðild, en tvíhliða samningur við ESB lenti ekki í öðru sæti heldur í því þriðja en aðildarumsókn lenti í öðru sæti, henni var forgangsraðað ofar.

Síðan héldum við flokksþing okkar í fyrra, 2009, þar sem framsóknarmenn samþykktu með þorra greiddra atkvæða, mjög fá mótatkvæði voru, að sækja um aðild að Evrópusambandinu með ákveðnum skilyrðum, það væri rétt stefna. Síðan hefur okkur greint svolítið á um þessi skilyrði, hvort þeim sé til haga haldið eða ekki í núverandi aðildarumsókn. Sú er hér stendur er á þeirri skoðun að þeim sé haldið til haga og studdi þess vegna aðildarumsókn, ég tel að það sé í anda vilja flokksþings framsóknarmanna.

Nú erum við komin í þá stöðu að Evrópusambandið hefur útkljáð að við séum tæk í samningaviðræður, sem er mjög gott að mínu mati, þannig að samningaviðræður eru að bresta á. Í þeim viðræðum höfum við auðvitað mikið veganesti. Ég vil draga hér fram að þegar aðildarumsóknarmálið kom frá hæstv. utanríkisráðherra í fyrra var það skjal sem kom frá hæstv. ráðherra mjög rýrt í roðinu. Hugsanlega var það af praktískum ástæðum til þess að leyfa þinginu að hafa mikil áhrif á skjalið. Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn lögðu fram annað skjal þannig að þessi tvö mál, sem lutu eiginlega að sama efni, fóru bæði til utanríkismálanefndar og voru samtvinnuð þar.

Ég ber ekki kinnroða fyrir það að ég fullyrði að formaður utanríkismálanefndar, Árni Þór Sigurðsson, hélt mjög lipurlega á því máli í nefndinni og nefndin lagði sig held ég alla fram um að vinna málið vel og sat hér að störfum í fyrrasumar, fékk mjög mikið af umsögnum og gat tvinnað þessar tvær tillögur saman í eina. Þannig að þetta er veganesti samninganefndar okkar og þess fólks sem vinnur að því að ná fram aðildarsamningi.

Í umræðunni áðan sagði hæstv. utanríkisráðherra að Stefán Haukur Jóhannsson sendiherra, sem er okkar aðalsamningamaður, væri mjög hæfur og mærði hann. Ég vil taka undir það. Ég held að við höfum verið heppin með val á samningamanni, alla vega hefur sú er hér stendur mikla trú á honum. Ég hef kynnst störfum hans eilítið í gegnum utanríkismál og sé ekki í fljótu bragði einhvern annan sem hefði verið betri, svo ég segi það hreint út. Samninganefndin er líka að mínu mati ágætlega skipuð. Flokkarnir hafa þarna aðgang. Utanríkismálanefnd fylgist líka vel með þessu þannig að ég sé ekki annað en að þetta mál sé í ágætisferli.

Samt er meiri hluti þjóðarinnar á móti því að vera í þessu ferli, eins og hér hefur verið dregið fram. Ég tel samt ekki að það eigi að stöðva málið. Við erum nýbúin að fjalla um þetta hér á Alþingi. Þetta er komið í ferli og ég held að við eigum að halda áfram með það ferli og gefa þá fólki tækifæri á að annaðhvort samþykkja samninginn eða fella hann þegar niðurstaða er komin. Ég held að mjög margt geti gerst í þessu ferli og viðhorf þjóðarinnar getur breyst. Ég held að fólk eigi rétt á því að fá að gera þetta upp við sig og vona að það verði kannski frekar fyrr en seinna þótt ég átti mig á því að þetta getur tekið mörg ár.

Ég vil líka draga það fram að ýmis hagsmunasamtök hafa látið sig þessi mál miklu varða, Samtök iðnaðarins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök verslunar og þjónustu, samtök bankamanna, Félag íslenskra stórkaupmanna og Alþýðusambandið. Þessir aðilar hafa allir verið frekar hlynntir aðildarumsókn og sumir mjög hlynntir. Önnur hagsmunasamtök, eins og t.d. Bændasamtökin, BSRB og LÍÚ, hafa verið frekar neikvæð og sum mjög neikvæð, þannig að vonandi fylgjast þessir aðilar allir vel með málum og reyna líka að upplýsa almenning eftir því sem tilefni gefast til.

Virðulegur forseti. Það er mitt mat að Evrópusambandsmálin séu í eðlilegum farvegi og við eigum að vera með hófstillta umræðu um þau og gera síðan upp við okkur hvert og eitt þegar á hólminn er komið hvort við viljum gerast aðilar eða ekki, það eru bæði kostir og gallar við það. Sú er hér stendur vill ekki kveða upp úr um það hvað verður réttast að lokum en ég viðurkenni að ég sé marga kosti við það að við gerumst aðilar að Evrópusambandinu, ég sé marga kosti við það en vil gjarnan sjá hvernig sjávarútveginum og landbúnaðinum reiðir af í aðildarviðræðunum áður en ég kveð eitthvað skýrar að orði.

Mig langar á þeim örfáu mínútum sem ég á eftir að tala um annað mál og það er eldgosið undir Eyjafjallajökli. Virðulegur forseti, það er fjallað um það á bls. 19 í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra og þar er dregið fram að tæplega 200 fréttamenn frá um 80 fjölmiðlum hafi komið til Íslands vegna gossins, ekki hafa komið jafnmargir fjölmiðlamenn til landsins vegna einstaks atburðar frá leiðtogafundinum í Höfða árið 1986. Þetta hefur að sjálfsögðu vakið mikla athygli úti um allan heim og er mikið mál og ansi alvarlegt, sérstaklega ef gosið dregst á langinn. Þá getur það farið að hafa áhrif á flugfélög og ferðaþjónustu, og það hefur nú þegar haft mikil áhrif á ferðaþjónustu. Ég reyndar tel og styð að reynt sé að styðja við ferðaþjónustuna í augnablikinu en til lengri tíma litið held ég að ferðaþjónustan muni hafa hag af þessu gosi. Ég held það auglýsi Ísland svo mikið almennt að þegar allt róast standi það eftir í hugum jarðarbúa, kannski sérstaklega Evrópubúa, að Ísland sé spennandi land. Fólk hefur það í huga og mun koma hingað, þannig að ég held að til lengri tíma litið sé gosið til góðs. Þetta er þó sagt með þeim fyrirvara að það dragist nú ekki úr hófi fram, hvað þá ef eitthvað nýtt kemur upp á.

Sérstaklega er fjallað um það að að það þurfi að koma á framfæri réttum og hófstilltum upplýsingum um þessi mál. Ég vil taka undir það. Ég held að þetta sé eitthvað sem utanríkisþjónustan þurfi kannski að huga betur að en hefur verið gert, að reyna að halda vel utan um fréttaflutning af stórviðburðum sem geta átt sér stað vegna legu landsins og náttúrunnar og gera allt sem hægt er til þess að hindra gassalega umræðu, óábyrgar yfirlýsingar o.s.frv.

Ég veit ekki nákvæmlega hvernig hægt er að gera þetta en ég held að menn þurfi að fara sérstaklega yfir þetta í ljósi þeirrar umræðu sem hefur orðið á opinberum vettvangi um eldgosið.