138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:56]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ekki skynjaði maður nú mikla sannfæringu fyrir vilja í þá átt að ganga í Evrópusambandið í þessari ræðu, heldur var farið út í gamla frasa um að við værum búin að innleiða svo og svo mikið í EES-samningnum, auk þess sem Íslendingar hefðu svo lítil áhrif á það sem kæmi þaðan í dag og við hefðum svo gríðarleg áhrif ef við gengjum í Evrópusambandið. Af hverju telur hún svona gríðarlega mikilvægt að við göngum í Evrópusambandið? Hvað er svona jákvætt fyrir Ísland við það að ganga í Evrópusambandið? Ég saknaði þess að fá ekki svör við því.

Nú liggur fyrir í skýrslu framkvæmdanefndarinnar að við fáum ekki undanþágur í sjávarútvegsmálum, það er algerlega slegið út af borðinu. Spánverjar hafa sagt það sama. Bretar hafa sagt það sama, að það sé algerlega slegið út af borðinu að við fáum þessar undanþágur sem settar voru fram, m.a. í landsfundarsamþykktum Framsóknarflokksins um ákveðin skilyrði fyrir umsókn að ESB. Það sama gildir um landbúnaðarmálin. Þar liggur fyrir að við getum ekki varið landbúnað okkar með þeim hætti sem landsfundarsamþykkt Framsóknarflokksins gerði ráð fyrir.

Því hlýtur maður að spyrja hvort hv. þingmaður telji eðlilegt að halda ferlinu áfram, miðað við það að við séum í þessari aðlögun, miðað við það að aðlaga þurfi regluverkið með þeim hætti sem ég fjallaði um áðan. Ég vildi endilega fá hennar sýn fram. Af hverju telur hún svona mikilvægt að við göngum í Evrópusambandið?