138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[13:02]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hæstv. utanríkisráðherra að það þarf að skoða þessi mál yfir lengri tímabil. Við getum ekki leyft okkur að hlaupa algjörlega eftir skoðanakönnunum frá mánuði til mánaðar o.s.frv., heldur þurfum við að skoða þetta heildstætt. Ég held að þingið hafi gert þetta upp við sig núna í sumar og við sóttum um. Ég tel að við eigum að klára þetta ferli. Það mun líklega taka langan tíma, en að mínu mati eigum við að klára það. Ég er sammála því — ég sé ekki af hverju við ættum að stöðva það nema eitthvað komi upp á sem er einhvern veginn svo fjarlægt að manni dettur það ekki í hug í augnablikinu, maður hefur nú þann fyrirvara. Þannig að ég er sammála þessu.

Ég vil leggja lykkju á leið mína fyrst verið er að nefna skoðanakannanir. Varðandi traust þá mælist Alþingi ótrúlega lágt í skoðanakönnunum. Við verðum að taka mark á því og efla traust almennings á Alþingi. En menn geta ekki látið skoðanakannanir slá sig út af laginu.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra, af því hann kaus að bregðast við umfjöllun um eldgosið og þeirri opinberu umræðu sem hefur orðið um það, og tók svona varlega til orða að málsmetandi menn höfðu komið þar inn með yfirlýsingar. Ég býst við því að hæstv. utanríkisráðherra eigi þar við forsetaembætti Íslands. Mig langar að spyrja vegna þeirra frétta sem komu frá forsetaembættinu um eldgosið á sínum tíma sem ollu hér nokkrum titringi: Er búið að setja þau mál í eitthvert ferli? Er komið á samstarf milli utanríkisráðuneytisins og forsetaembættisins þannig að komi eitthvað nýtt upp verði menn samstilltari en þeir hafa verið?