138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[13:42]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki þá dul að geta þulið hér upp hvernig styrkjakerfið við landbúnað verður eftir inngöngu í Evrópusambandið heldur tel ég að það sé eitt af því sem þurfi að semja um og það hlýtur þá að koma í ljós. Ég hef ekki svarið við þeirri spurningu akkúrat núna.

Hv. þingmaður spyr einnig um upplýsingar í samningaferlinu. Eins og ég gat um í ræðu minni er starfshópur á vegum utanríkismálanefndar að vinna að tillögum um þessi efni og skilar þeim tillögum væntanlega á næstu dögum og þá koma þær fram og þá mun ég taka afstöðu til þeirra. Í stórum dráttum tel ég það eiga að vera þannig að hér verði væntanlega einhverjar hreyfingar sem eru kallaðar já- og nei-hreyfingar og eftir því sem ég best veit er hv. þingmaður öflugur liðsmaður í annarri hreyfingunni.

Ég hefði talið eðlilegt að fjármunir frá íslenska ríkinu gengju til beggja hreyfinga. Það er svo aftur annað mál, og kemur væntanlega fram í þessum tillögum sem ég hef nefnt, að verið sé að undirbúa hvernig verður greint frá samningaviðræðunum sjálfum og því sem fer fram á fundunum, hver samningsmarkmiðin séu og hvernig því starfi vindur fram. Ég geri ráð fyrir að það verði í höndum öflugra starfsmanna utanríkisþjónustunnar.