138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[13:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil, líkt og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, hæla hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ræðu hennar. Það var líka eftir því tekið í sumar, og ég hældi hv. þingmanni líka þá, fyrir það hversu málefnalega ræðu hún hefði haldið og hversu mikla trú hún hefði á því að hagsmunum Íslands væri betur borgið innan Evrópusambandsins, þó við séum ekki sammála um það. Ég hafði hugsað mér að spyrja hv. þingmann út í landbúnaðarmálin, en það var komið inn á það í fyrra andsvari. Mig langaði þess í stað að ræða aðeins um evruna.

Nú höfum við öll fylgst með því að evran hefur átt við gríðarleg vandamál að stríða og myntsamstarfið í heild sinni. Í Grikklandi fyrr í vikunni voru beinlínis slökkviliðsaðgerðir við það að reyna að bjarga evrunni. Margir sögðu sem svo að ef það hefði ekki tekist á þeim tímapunkti hefðum við líklega verið að sigla inn í aðra kreppu. Núna hafa margir af því áhyggjur að þetta hafi ekki verið nóg og við höfum einfaldlega sloppið fyrir horn. Angela Merkel fjallaði m.a. um þetta í fréttum í gær. Ég hef kynnt mér það sem fræðimenn hér og vestanhafs hafa sagt um þetta, sem er að einkum séu tvær leiðir til þess að bjarga myntsamstarfinu. Annars vegar að þau ríki sem séu illa stödd, en jafnvel betur stödd en við Íslendingar, kljúfi sig út úr myntsamstarfinu. Það væru þá einungis Þýskaland og ríkin þar í kring sem mundu halda evrunni. Hins vegar er það hin leiðin, sem Angela Merkel kom inn á í gær, að færa aukin völd til Evrópusambandsins og færa þá stjórn efnahagsmála, stjórn skattamála og fjárlagagerð til þess, auk þess sem hún fjallaði um sameinaðan her Evrópusambandsins. (Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvor leiðin henni hugnast betur, til þess að bjarga evrunni? (Forseti hringir.)