138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[13:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er mjög stolt af því að vera íhaldsmaður. Þetta hefur ekkert með íhaldssemi að gera vegna þess að Varnarmálastofnun er ekki það sem kallað er gömul stofnun. Það er ekki eins og menn hafi verið að bíða og bíða eftir því að hennar dagar yrðu taldir, nema kannski í einum stjórnmálaflokki sem er samstarfsflokkur hv. þingmanns. En Varnarmálastofnun er ekki einu sinni tveggja ára. Það er ekki komin reynsla á Varnarmálastofnun. Hvað sem fólki finnst um þá stofnun, hægt er að hafa allar skoðanir á því, hlýt ég að trúa því að hv. þingmanni finnist þetta ekki verklag til fyrirmyndar.

Það er annar grundvallarmisskilningur í orðum hv. þingmanns þegar hún talar um að nauðsynlegt sé að flytja þessi verkefni yfir til borgaralegrar stofnunar. Varnarmálastofnun er borgaraleg stofnun. Þar eru engir hermenn að störfum. Þar eru íslenskir borgarar að störfum. Þó svo að verkefnin, sem hæstv. utanríkisráðherra hefur margítrekað að verði ekki lögð niður, verði færð (Forseti hringir.) eitthvert annað breytir það því ekki að Varnarmálastofnun er borgaraleg stofnun.