138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Nei, frú forseti, hæstv. ráðherra var ekki að segja mér miklar fréttir um þetta. Ég óskaði eftir því að hann færi yfir það hverjar hann teldi líkurnar á því að þetta næðist fram í júní og ef ekki hvaða tímamörk hæstv. ráðherra er að tala um núna. Ég rakti hér áðan í ræðu minni að það væri mjög lítið kjöt á beinunum og yfirlýsingagleði hæstv. ráðherra hefur snarminnkað á einu ári.

Það er góð og gild skýring á fjarveru hæstv. ráðherra á leiðtogafundi að hann hafi ekki komist vegna goss. Ég spyr, vegna þess að ekki gaus í desember, hvað olli því að hann sótti ekki ráðherrafundinn þá?

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort Evrópusambandsumsóknin er að hans áliti grundvallarþáttur í endurreisn Íslands. Í ræðunni talaði hann mikið um evruna og að hún leiki stórt hlutverk. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað heldur hann að það tæki okkur Íslendinga mörg ár að taka upp evru? Heldur hæstv. ráðherra að við getum orðið aðilar að evrunni innan fárra ára? Eins spyr ég að því hvort hann telji líklegt að við uppfylltum Maastricht-skilyrðin innan fárra ára, hvaða áætlanir hefur hann í þeim efnum? Líka hvort menn geri sér grein fyrir því hvort t.d. Alþýðusambandið hafi kynnt fórnirnar fyrir sínu launafólki, hvað þyrfti að gera til þess að við uppfylltum þessi skilyrði? Hefur ríkisstjórnin og félagar, eða (Forseti hringir.) öllu heldur hæstv. ráðherra og félagi hans í Alþýðusambandinu, rætt þetta út frá hagsmunum verkalýðsins?