138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Ég fagna þessari umræðu. Það er gott að taka stöðu á utanríkismálunum á þessum tímapunkti. Þau málefni sem ég hef mestan áhuga á að ræða í skýrslunni eru málefni sem tengjast aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu og aðildarferlinu sem er í fullum gangi í íslensku samfélagi, mest á bak við tjöldin. Þess vegna er mjög gott að fá tækifæri til að fara yfir stöðuna.

Að mínu mati hefur verið gert bjölluat í Brussel. Ég hef áður sagt opinberlega að ég tel það stóralvarlegt að senda inn aðildarumsókn að Evrópusambandinu án þess að hugur fylgi máli af hálfu a.m.k. stórs hluta þeirra þingmanna sem greiddu atkvæði með þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar. Ég tel að það sé slæmt fyrir orðspor Íslendinga og Íslands á alþjóðavettvangi og verst af öllu tel ég það vera fyrir þá Íslendinga sem hafa einhverja sannfæringu um að við eigum heima í Evrópusambandinu. Ég tel að rétt væri og besti kosturinn í stöðunni að draga aðildarumsóknina til baka og hætta þessari vegferð sem kostar allt of mikla peninga, allt of mikla orku af utanríkisráðuneyti og öllum ráðuneytunum í rauninni. Þá hefði íslenska stjórnsýslan tíma til að sinna betur þeim verkefnum sem bráð þörf er á að sinna í kjölfar efnahagshrunsins.

Mig langar jafnframt að fjalla um þátt stjórnmálahreyfingarinnar Vinstri grænna í málinu. Sú hreyfing fór fram í kosningabaráttunni með þá yfirlýstu stefnu að berjast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þess vegna skýtur það mjög skökku við, eins og ég hef áður sagt, að þetta sé flokkurinn sem ber ábyrgð á því að aðildarferlið sé í gangi hér á landi. Ég einfaldlega skil ekki hvernig þingmenn þess flokks, sem greiddu atkvæði með tillögunni, geta horfst í augu við kjósendur sína. En það er þeirra mál og þeirra ábyrgð.

Fullyrt hefur verið að það sé allt í lagi að senda inn aðildarumsókn til þess að kanna og skoða hvað sé í pakkanum. En þannig virka hlutirnir einfaldlega ekki. Þegar maður sækir um aðild að Evrópusambandinu er það vegna þess að mann langar að fara þar inn. Það er að minnsta kosti það sem hinir háu herrar úti í Brussel búast við af þeim sem senda inn aðildarumsókn. Venjulega er það svo í þeim löndum sem hafa óskað eftir aðild, að þegar það er tilkynnt af hálfu Evrópusambandsins að til standi að fara í viðræður, þá brjótast yfirleitt út fagnaðarlæti á götum. Það var nú ekki hér á Íslandi. Ég sé það kannski best á því, hversu ólík staða okkar er miðað við þau lönd sem hafa sótt um aðild að undanförnu.

Það hefur jafnframt verið fullyrt að kostnaðurinn við umsóknina sé 1 milljarður. Síðast í morgun tilkynnti hæstv. utanríkisráðherra að það væri nettóhagnaður af aðildarumsókninni. Nettóhagnaður, vegna þess að Evrópusambandið mundi leggja 6 milljarða í púkkið. Þá gleymist að telja til aðra 6 milljarða sem íslenska ríkinu er ætlað að leggja á móti. Jafnframt gleymist að telja þann kostnað sem til fellur vegna glataðra tækifæra sem aðildarumsóknin hefur í för með sér. Þingmennirnir sem samþykktu tillöguna bera ábyrgð á þessum glötuðu tækifærum. Þar á meðal þingmenn Vinstri grænna. Menn geta ekki annað en horfst í augu við þetta.

Í skýrslu ráðherrans, á bls. 84 og 85, er fjallað um viðskiptasamninga og fríverslunarsamninga. Á bls. 85 er fjallað um fríverslunarviðræður milli Íslands og Kína sem hófust árið 2007. Eins og við vitum er öflugt hagkerfi í Kína og þeir höfðu mikinn áhuga á því að koma á fríverslunarsamningi við Ísland. Ísland hefur enn þá sjálfstæði að því leyti að hafa heimild til þess að gera sjálft svona samninga. Það verður ekki svo um leið og við erum gengin inn í Evrópusambandið. Þá er það Evrópusambandsins að semja.

Samningaviðræður við Kínverjana hafa verið í frosti frá því í apríl 2008 og ekki hefur fengist samþykki frá Kína til að hefja næstu samningalotu. Það kemur fram í skýrslunni. Það er auðvitað sjálfgefið. Til hvers ættu þeir að eyða tíma sínum í að tala við ríkisstjórn og land sem ætlar sér að fara inn í Evrópusambandið? Það þyrfti að mínu viti að meta hvaða afleiðingar aðildarumsóknin hefur haft á möguleika íslensku þjóðarinnar til þess að gera samninga sem þessa og hve miklar gjaldeyristekjur hafa tapast af þeim sökum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að leiða þetta fram í dagsljósið. Það er ekki rétt að aðildarumsókn okkar dragi ekki dilk á eftir sér að þessu leyti.

Það er annað mál sem mig langar að taka upp og hefur sjálfsagt verið rætt í dag, það er varðandi gjaldmiðilinn. Ég veit ekki hversu oft ég hef komið upp í ræðustól til þess að reyna að leiðrétta þann misskilning sem fór af stað í fyrrasumar, að þegar við mundum sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga þar inn stæði evran okkur til boða. Það er einfaldlega ekki svo. Við þurfum að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Það er gott og gilt að uppfylla þau. Þau eru heilbrigðisvottorð fyrir hagkerfið og efnahagslegt umhverfi þjóðar sem uppfyllir þau. Við gerum það ekki í dag og væntanlega eru nokkur ár í að við gerum það.

Af þeirri ástæðu er þegar ljóst að við tökum ekki upp evruna á næstu missirum. Þess vegna hef ég margoft hvatt menn til þess að hætta að tala niður íslenska gjaldmiðilinn. Það er stóralvarlegur hlutur að gera það og hefur margoft gerst og sérstaklega í þessum stól og í umræðunni sem átti sér stað um Evrópusambandið í fyrrasumar. Ég vil að menn hugsi út í það að menn bera ábyrgð á því að hér komist á stöðugt efnahagslíf að nýju. Leiðin til þess er ekki að tala niður gjaldmiðilinn.

Þriðja atriðið sem mig langar rétt að tæpa á, á þeim stutta tíma sem ég hef, er hvað verður Evrópusambandið í framtíðinni. Hvert er það að stefna? Hvað ætla menn sér með það? Í Evrópu hefur mikil umræða farið af stað í kjölfar efnahagsvandræða Grikkja og í kjölfar efnahagspakkans og björgunaraðgerða sem sambandið hefur ráðist í, til þess að reyna að draga upp efnahagslífið hjá þeim. Meðal annars hefur Angela Merkel sagt opinberlega í fjölmiðlum að eina leiðin til þess að ná einhverjum tökum á þeim óþekku smáríkjum sem gera hlutina eitthvað öðruvísi en Þjóðverjar vilja sé að herða reglurnar og breyta sáttmálum Evrópusambandsins þannig að þeir sem öllu ráða þar fái sterkari ítök til þess að grípa inn í efnahagslíf einstakra aðildarríkja.

Ég tel að enn og aftur sé verið að koma því á framfæri að sjálfstæði þjóðanna innan Evrópusambandsins muni minnka á komandi árum. Það er stefnan. Það er markmiðið. Það er markmiðið hjá stóru þjóðunum sem ráða mestu í Evrópusambandinu og það er algjörlega óumflýjanlegt að þannig líti framtíðin út. Ég tel einfaldlega ekki að slík framtíðarsýn sé það sem íslensk þjóð þarf á að halda í dag.

Vissulega eru erfiðleikar hér heima. Við vitum það öll. En við eigum einfaldlega að takast á við það sjálf, átta okkur á því að það kemur enginn til með að bjarga okkur. Við verðum að bjarga okkur sjálf. Það er gott að eiga góða granna, gott að fá aðstoð. En ég tel ekki boðlegt að láta stjórnartaumana að miklu leyti í hendur á öðrum aðilum en íslenskum stjórnvöldum. Það tel ég ekki vera lausn. Ég tel að þá sé einfaldlega verið að gefast upp á verkefninu og ég er einfaldlega ekki þannig gerð að það sé fyrsti kostur. Hins vegar virðist aðild að Evrópusambandinu vera meginstefna Samfylkingarinnar og af einhverjum undarlegum hvötum hafa þingmenn Vinstri grænna margir hverjir látið glepjast af því að ná völdum hér á landi gegn því að selja hugsjón sína í þessu efni. Það er mjög miður. Ég hafði mikla trú á því að Vinstri grænir mundu standa fast í lappirnar í þessu máli. Ég hafði mikla trú á því að það yrði samhljómur á milli ákveðinna flokka á þinginu í málinu. Þar á ég við Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græna. Sú er ekki raunin, því miður. Ég hvet þingheim enn og aftur til þess að íhuga hvort ekki væri rétt að sammælast um að taka málið aftur inn í þingið og draga aðildarumsóknina til baka.