138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er hæstv. utanríkisráðherra þekktur orðhákur en ég sætti mig ekki við að hann leggi mér orð í munn. Ég hef aldrei sagt að samþykktir Alþingis Íslendinga séu eitthvert grín. Það hef ég aldrei sagt. Það er hins vegar algerlega ljóst að hugur fylgir ekki máli með aðildarumsókninni . Hæstv. utanríkisráðherra veit það. Þingmenn í Evrópu hafa margir hverjir komist að raun um þetta, þegar þeir hitta íslenska þingmenn, að það er ekki mikill vilji eða sannfæring hjá íslenskum þingmönnum fyrir því að ganga inn í Evrópusambandið. Þeir háu herrar í Brussel, þeir ágætu menn, eru einfaldlega ekki vanir því að lögð sé inn aðildarumsókn án þess að fullur hugur fylgi máli. Það er það sem ég er að segja. Ég hef aldrei sagt að samþykktir Alþingis séu eitthvert grín. Ég kann ekki við að hæstv. utanríkisráðherra, sá mikli mektarmaður, standi í ræðustól og leggi mér slík orð í munn.

Viðskipti okkar við Kína eru að sjálfsögðu minni en við Evrópusambandið, enda er sagan þar ekki til staðar og fríverslunarsamningur liggur ekki fyrir. Hins vegar eru tækifærin þar gríðarleg, tækifæri sem við erum nú að glutra úr höndunum vegna stefnu stjórnvalda um að leggja inn aðildarumsókn að Evrópusambandinu og sýna þar með umheiminum að það sé vilji ríkisstjórnarinnar að ganga inn í Evrópusambandið, þótt viljinn sé ekki til staðar. Hann er vissulega til staðar hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar, en ég hef nú ekki séð hann hjá mörgum öðrum hv. þingmönnum, hvorki í þessari umræðu né heldur í fyrrasumar. Ég upplifi það hins vegar að sjá hæstv. forsætisráðherra draga hv. þingmenn Vinstri grænna fram á pall, til þess að reyna að þvinga þá til að skipta um skoðun rétt fyrir atkvæðagreiðslu. (Forseti hringir.) Það tel ég ekki vera til fyrirmyndar.