138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Áðan var verið að gera mér upp skoðanir og nú er það smjörklípuaðferðin, að fara að tala um einhverjar skoðanakannanir hér í pontu. Ég hef ekki minnst einu orði á skoðanakannanir, hef ekki minnst einu orði á það hvernig fylgið hefur sveiflast upp og niður varðandi þessa aðildarumsókn. Ég er einfaldlega að tala um þingviljann, vilja þingmanna hér í Alþingi, hvernig þeir rökstuddu afstöðu sína í sumar með því, sumir hverjir, að tala gegn Evrópusambandsaðild í atkvæðaskýringu og lýsa því svo yfir að þeir styddu þessa umsókn, haldandi að þetta væru einhvers konar könnunarviðræður, gerandi sér ekki grein fyrir því að úti í Brussel eru menn einfaldlega ekki vanir slíkum hringlandahætti. Þar sækja þjóðir einfaldlega um ef þær vilja fara inn, ef þingvilji er fyrir því.

Við höfum sagt það, sjálfstæðismenn, að ef breið sátt væri um það eða breiður þingvilji fyrir því að sækja um aðild væri rétt að gera það. Sú er hins vegar ekki staðan og þess vegna erum við ekki að vinna af heilindum í þessu máli og þess vegna er þetta ekki íslensku þjóðinni til framdráttar (Forseti hringir.) á erlendum vettvangi.