138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:48]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Við deilum skoðunum í Evrópusambandsmálinu. Það væri munur ef allir þingmenn væru jafnskorinorðir og hv. þingmaður.

Hv. þingmaður kom inn á ábyrgð Vinstri grænna í þessari umsókn. (Gripið fram í.) Það var ekki með mínu atkvæði sem það var gert en vissulega greiddu þingmenn Vinstri grænna þessu atkvæði. Jafnframt kom hv. þingmaður inn á að þetta hefðu verið einhvers konar, eða svo mátti skilja, pólitísk hrossakaup. Þá langar mig aðeins að vitna til þess að í hennar flokki voru ritaðar greinar, m.a. af hv. þm. Bjarna Benediktssyni, sem bentu til þess að menn væru farnir að gæla við Evrópusambandsaðild. Jafnvel þingmaður eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var farinn að gæla við þetta á sínum tíma.

Í morgun hélt Bjarni Benediktsson, hv. formaður Sjálfstæðisflokksins, ræðu hér sem fjallaði um þessi mál. Mér fannst hann ekki taka jafnsterkt til orða og hv. síðasti ræðumaður gerði. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hún telji rétt að draga umsóknina til baka og hvort hún telji að það mundi njóta stuðnings í flokki hennar.