138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Það er gott að eiga skoðanabræður í öðrum flokkum og ég tel að það sé til fyrirmyndar hvernig okkur, nýjum þingmönnum, hefur gengið að feta inn á sameiginlegar brautir í sumum málum.

Sumir flokkanna eru vissulega stórir og í þeim er fólk sem hefur ólíkar skoðanir, það þekkjum við öll sem hér störfum. Ég tel mikilvægast af öllu að flokkar hafi skýra stefnu og skýra sýn, sérstaklega í þessu stóra máli. Ég hef barist fyrir því innan míns flokks, og ég valdi mér það að starfa innan flokks að þeim hugðarefnum sem ég vil koma á framfæri, að línan sé algjörlega skýr í þessu máli. Ég hef gert það og ég kem til með að gera það áfram. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við ræðum þessi mál reglulega á vettvangi allra flokka, líka á vettvangi Samfylkingarinnar, þar sem þó virðist vera algjör einstefna í málinu.

Ég kannast við flokk sem var í ríkisstjórnarsamstarfi við Samfylkinguna. Ég kannast við að Samfylkingin reyndi að leggja Sjálfstæðisflokknum línur um það að fara að skipta um skoðun í Evrópusambandsmálum. Sjálfstæðisflokkurinn fór aftur yfir Evrópusambandsmálin í janúarmánuði fyrir rúmu ári. Þar komumst við að þeirri niðurstöðu að hagsmunum Íslands væri best borgið fyrir utan Evrópusambandið. Það er sú stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur. Það eru þau markmið sem ég er að vinna að, bæði utan og innan þings. Ég hef svo sannarlega sannfæringu fyrir því að ef lögð yrði fram þingsályktunartillaga um að draga Evrópusambandsumsóknina til baka mundu þingmenn Sjálfstæðisflokksins vinna á grundvelli stefnu Sjálfstæðisflokksins.