138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og ég ber virðingu fyrir skoðunum hans. Hann hefur margoft haldið því til haga hér í umræðunni að hann hafi í kosningabaráttu sinni, þar sem hann kom, getið þess að hann vildi hugsanlega fara aðra leið en flokkslína VG var, alla vega í kosningabaráttunni í Suðurkjördæmi. Hv. þingmaður býr ekki við þann munað að vera þingmaður Suðurkjördæmis eins og ég og fleiri góðir menn.

Hv. þingmaður minntist á það hér að ef við mundum draga umsóknina til baka færu menn að velta því fyrir sér hvert Ísland væri að stefna og hvað það vildi eiginlega. En það er einfaldlega það sem menn eru að velta fyrir sér. Þingmenn annarra þjóðþinga í Evrópu sem hafa hitt hv. þingmenn hér á landi og fundið þann anda sem fylgir aðildarumsókn og aðildarferli sem nú er hafið hér á Íslandi gagnvart Evrópusambandinu eru mjög hugsi yfir því hvað í ósköpunum við höfum verið að senda þetta bréf út til Evrópu þegar við höfum einfaldlega, að því er þeim finnst, afskaplega lítinn áhuga á því að fylgja þessu máli eftir. Það væru þá helst hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem hafa einhverja sannfæringu í þessu máli. Þannig að það er einfaldlega staðan. Menn eru mjög hugsi úti í Evrópu. Ég hef ítrekað það enn og aftur að væri ég aðildarsinni, væri ég fylgjandi því að ganga inn í Evrópusambandið, væri ég alveg bálreið yfir þessu ferli og yfir því hvernig málum er háttað. Ég tel þetta ekki gott fyrir íslenska hagsmuni, hvort sem maður er á móti aðild eða með aðild. Þetta er einfaldlega — já, við höfum margoft sagt það — bjölluat og það er aldrei vinsælt að standa í slíku. Ég tel að hv. þingmaður ætti einfaldlega að koma í lið með mér og leggja fram þingsályktunartillögu með mér um að draga þetta til baka, það væri farsælast.

En að lokum ein spurning til hv. þingmanns: Vill hv. þingmaður að Ísland gangi í Evrópusambandið? (Forseti hringir.)