138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:58]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það ég sem er að veita andsvar við ræðu þingmannsins þannig að það er mitt að bera fram spurningar og setja fram sjónarmið við ræðu hv. þingmanns. Það sem ég vil segja við hv. þingmann er þetta:

Það er rétt hjá hv. þingmanni að við höfum átt marga fundi með fulltrúum annarra þjóðþinga, þingmönnum frá ýmsum aðildarríkjum Evrópusambandsins, frá Evrópuþinginu, og við höfum skýrt þá pólitísku stöðu sem hér er uppi. Hún er ekki óþekkt í ríkjum Evrópusambandsins. Hún var t.d. uppi í ýmsum Eystrasaltsríkjum áður en þau ákváðu að sækja um aðild og á öðrum Norðurlöndum sem sótt hafa um aðild o.s.frv. Þetta er þekkt. Ég hef átt fundi með fulltrúum annarra stjórnmálaflokka hér á þingi, m.a. fulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa t.d. verið hv. þm. Bjarni Benediktsson, stundum hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og stundum hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir og mér er ekki alveg ljóst hvort þau hafa verið að tala fyrir sömu stjórnmálastefnunni eða fyrir sama stjórnmálaflokkinn.