138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. utanríkisráðherra hæstv. um utanríkis- og alþjóðamál. Ég er mjög ánægður og þakklátur fyrir að hún hafi komið fram. Ég ætla að ræða aðallega þrjú atriði. Þar af hanga tvö saman: AGS, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, og Icesave, og svo aðildarumsóknin að Evrópusambandinu. Síðan ætla ég að koma inn á hefðbundin utanríkismál.

Mér finnst vanta sterkara orðalag í skýrslunni um að það að við skyldum neyðast til að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi verið misnotað til þess að kúga Íslendinga. Það hefur vantað að forráðamenn þjóðarinnar segi þjóð sinni: Við erum að vinna í nauð. Allt ferlið er nauðungarsamningur. Það finnst mér vanta illilega. Það kemur hvergi fram í skýrslunni.

Í skýrslunni er víða getið um Icesave og stendur hér á síðu 4, með leyfi frú forseta:

„Síðast en ekki síst hefur Icesave-málið reynst erfitt, sem og óheppilegar tilraunir til að tengja það við framkvæmd efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Þetta er afskaplega veikt. Eitthvað „óheppilegt“, já. Þetta er hreinlega kúgun og það á að standa þarna.

Hér stendur að hæstv. utanríkisráðherra hafi átt fundi með Dominique Strauss-Kahn, aðalframkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til að ræða þessi mál og fara yfir framgang mála og fleira, og stöðuna í Icesave-málinu. Það kemur ekki fram að hann hafi lagt að framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hætti þessari kúgun sem íslensk þjóð er beitt. (Gripið fram í.)

Eftir að þjóðin, góðu heilli, og forsetinn, felldi lögin úr gildi átti hæstv. utanríkisráðherra fund með Bretum og Hollendingum í Haag 29. janúar. Hann gerði ýmislegt og ræddi við og átti 70 fundi með erlendum ráðherrum, sem er fínt. En það kemur ekki fram að hann hafi lagt að þeim og bent þeim á að Íslendingar eru kúgaðir til þess að semja og að þeir eigi ekki að borga þetta. Það held ég að sé niðurstaða flestra þeirra sem skoða málið í hörgul.

Svo segir í skýrslunni að utanríkisþjónustan hafi nýst til að skýra sjónarmið Íslands í Icesave-málinu. Ég vil nú segja, frú forseti, að ég er ekki sammála þessu. Maður horfði og hlustaði með forundran á yfirlýsingar erlendra fjölmiðla um að Íslendingar ætluðu sko ekki að borga neitt. Þetta væri þjóð sem nennti ekki að standa við skuldbindingar sínar. Í alþjóðapressunni var enginn upplýstur. Ef einhver gerði það, frú forseti, voru það erlendir einstaklingar, sem hreinlega blöskraði hversu mikið var gengið á rétt Íslendinga. Financial Times á heiður skilið fyrir það hvernig þeir tóku upp málstað Íslendinga. Utanríkisþjónustan var ekki á þeim buxunum að upplýsa fjölmiðla heims um málið. Hæstv. forsætisráðherra Íslands fer til Evrópu að tala við æðsta mann Evrópusambandsins, skildist mér, og neitar að tala við fjölmiðla. Alveg með ólíkindum.

Þótt ég sé ekki mjög hrifinn af forseta Íslands og hafi ekki verið í gegnum tíðina þá dáðist ég að því hvernig hann stóð vörð um hagsmuni Íslands og kynnti stöðu Íslands og hagsmuni gagnvart erlendum fjölmiðlum. Hann vann kraftaverk, frú forseti, ég fullyrði það. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, vann kraftaverk í því að upplýsa erlenda fjölmiðla um stöðu Íslands og afstöðu, sem utanríkisþjónustan gerði ekki. Það er ekki orð í skýrslunni um hlutverk forsetans í því að upplýsa fjölmiðla heimsins. Hann stóð sig alveg frábærlega vel. Átti ég nú ekki von á því, frú forseti, að ég mundi standa í pontu Alþingis og mæra hæstvirtan forseta lýðveldisins.

Svo ætla ég að nefna Evrópusambandið. Auðvitað er þetta grínumsókn. Flestir sem styðja málið á Alþingi segja að sjálfsagt sé að kíkja í nammipokann og sjá hvað er í honum. En svo ætla þeir ekki að ganga inn, nei, nei. Ég hef ekki heyrt marga Vinstri græna lýsa því yfir að þeir ætli að ganga inn. Áðan fór hv. formaður utanríkismálanefndar lipurlega í kringum það. Það væri ekki verið að spyrja hann, hann ætti að spyrja. Því liggur ekki enn fyrir hvort hann vilji að Ísland sé aðili að Evrópusambandinu. Það væri ágætt að það kæmi fram hvort formaður hv. utanríkismálanefndar vilji að Ísland sé hluti af Evrópusambandinu, því þangað stefnum við. Eða er ekkert að marka þetta? Það er nefnilega málið.

Kattasmölunin á Alþingi — ríkisstjórnin — Jón Bjarnason, hann er á móti því að ganga í Evrópusambandið. Hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir er á móti því að ganga í Evrópusambandið. Hún lýsti því yfir í atkvæðisskýringu en sagði svo já. Hvurslags er þetta eiginlega? Álfheiður Ingadóttir, vill hún ganga í Evrópusambandið? Það væri nú gaman að fá það alveg á hreint. Nú, eða Katrín Jakobsdóttir, vill hún ganga í Evrópusambandið? Þetta liggur ekkert fyrir. Það liggur ekki einu sinni fyrir innan hæstv. ríkisstjórnar hvort fólk vill ganga í Evrópusambandið, hvað þá innan Alþingis. Svo er ekki minnst á að stjórnarskráin bannar þetta, að ganga í Evrópusambandið. Það er ekki minnst á þingsályktun Alþingis í umsókninni eða að Alþingi hafi samþykkt þetta mjög naumt.

Formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, sagði í morgun í svari við andsvari að þjóðaratkvæðagreiðsla væri bindandi. Þekkir hv. þingmaður ekki stjórnarskrána? Það stendur í henni að hver einasti þingmaður eigi að fara að sannfæringu sinni. Og heldur hv. þingmaður (Gripið fram í.) að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason muni samþykkja aðild að Evrópusambandinu ef 51% þjóðarinnar samþykkir það? Heldur hv. þingmaður það? (Gripið fram í.) Heldur hv. þingmaður (Gripið fram í.) að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir (Gripið fram í.) greiði atkvæði gegn aðild ef þjóðin er búin að fella það með 51%? Þessi bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki bindandi. Að óbreyttri stjórnarskrá, sem við allir hv. þingmenn höfum svarið eið að, verður það Alþingi, sem þá hefur verið kosið, sem tekur um það ákvörðun. Það er þannig. Þar fer hver þingmaður eftir sannfæringu sinni. Ef hv. þm. Ásmundur Einar Daðason vill ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið segir hann nei, þótt þjóðin hafi með 51% meiri hluta sagt já.

Menn eru hreinlega að villa um fyrir Evrópusambandinu og kjósendum á Íslandi. Þessi atkvæðagreiðsla hefur ekkert að segja.

Ég ætla ekki að tala um landbúnaðinn, sjávarútveg og auðlindir eða þá mannauðinn sem mun leita til Brussel. Ég ætla ekki að tala um það, en það er líka mjög mikilvægt. Ég tel það vera mikilvægast, ekki vandamálið með landbúnað eða sjávarútveg.

Svo er það evran. Það stendur reyndar ekki í skýrslunni en ráðherrann féll í þá gildru enn einu sinni að tala um að vextir muni lækka, verðtryggingin muni falla burt, verðlag muni lækka og við tökum upp evru nánast — ja, einhvern tímann. Fyrst þurfum við nú að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Og verðtryggingin, hún er ekki leyst. Maður sem á skuldabréf sem er verðtryggt til 40 ára og útgefið af íslenska ríkinu mun krefjast þess að fá verðtryggingu ofan á evru. Að sjálfsögðu, nema hvað, frú forseti? Eignarrétturinn er tryggður. Þetta er allt saman óleyst. Svo tala menn hér eins og verðtryggingin hverfi bara. Ég er alveg gáttaður á þessu.

Svo er það kostnaðurinn. Hv. þm. Jón Bjarnason sagði í Morgunblaðinu 9. apríl:

„Ég efast um að landsmenn hafi áttað sig á því að framkvæmdastjórn ESB gerir kröfu um grundvallarbreytingu á laga- og stofnanaumhverfi okkar til að greiða fyrir aðild áður en þjóðin hefur kveðið upp sinn dóm.“

Á þá bara að borga og breyta öllu kerfinu? Þetta sagði Jón Bjarnason, ég las orðrétt eftir honum.

Í skýrslunni er talað um samninga við Kína og menn eru alveg hissa á því að Kínverjar vilji ekki semja við okkur. Það er nefnilega þannig að Kínverjar átta sig á því að þeir sem ætla að ganga inn í Evrópusambandið semja ekki við aðrar þjóðir. Það er Evrópusambandið sem semur fyrir þá. Þetta vita Kínverjar, en hæstv. utanríkisráðherra virðist ekki vita það. Hann sækir óskilyrt um aðild að Evrópusambandinu og Kínverjar hafa lesið það. Þá vita þeir að það þýðir ekkert að tala við þann mann. „Hann ætlar að ganga í Evrópusambandið, þá semur hann ekki við okkur.“