138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:19]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var nú svolítið skemmtileg ræða hjá hv. þm. Pétri Blöndal. Hann var farinn að syngja hérna heyrðist mér, kominn í samkeppni við hv. þm. Árna Johnsen, sem söng hér á sínum tíma.

Ég vil gjarnan spyrja hv. þm. Pétur Blöndal, af því ég tel hann vera lýðræðissinna og stærðfræðing líka, hann hugsar oft í rökréttum ferlum, því ég á svo erfitt með að átta mig á röksemdafærslunni að vera andsnúinn því að þjóðin fái að kveða upp úr um hvað henni finnst. Nú er Alþingi búið að samþykkja aðildarviðræður og sækja um aðild. Þegar niðurstaðan kemur á þjóðin að kveða upp úr um hana. Hér eru taldir upp nokkrir þingmenn VG hvað þeir vilja hist og her. Er ekki aðalatriðið hvað þjóðin vill? Getur fólk ekki sagt (Forseti hringir.) að það vilji fara að þjóðarvilja?