138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:26]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég í andsvari við hv. þingmann og minni hann á ákvæði 56. gr. þingskaparlaga sem fjallar um andsvör.

Það sem ég ætla að segja enn og aftur um sannfæringu er það að ég hef þá sannfæringu, já, og ætla að ítreka það að mér finnst mikilvægt að ferlinu sem nú er hafið ljúki. Af hverju? Vegna þess að ég vil að þeir kostir sem þjóðin stendur frammi fyrir þegar þar að kemur séu skýrir. Að hvor niðurstaðan sem verður ofan á af hálfu þjóðarinnar verði góð í þágu íslenskra hagsmuna til framtíðar. Það er sannfæring mín að þjóðin eigi að ráða þessu máli til lykta. Það er t.d. í samræmi við þá stefnu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur markað á landsfundi sínum, að þjóðin eigi að ráða þessu máli. Ég tel mig vinna í samræmi við hana og sannfæring mín er líka í þessa veru.