138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:33]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kom nú aðallega hingað upp af því að hv. þingmanni varð tíðrætt um sannfæringu þess sem hér stendur og fór inn á þjóðaratkvæðagreiðslur og annað sem því tengist. Ég hef áður sagt í þessum ræðustól að ég muni ekki greiða atkvæði með því að Ísland gangi í Evrópusambandið, hvort heldur þjóðin hafni því eður ei, því að samkvæmt stjórnarskránni ber hverjum og einum þingmanni að fylgja sannfæringu sinni í þessu máli. Það mun ég gera. Þess vegna studdi ég m.a. að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort þjóðin ætti að sækja um aðild eða ekki. Ég held að það hafi nú komið berlega í ljós, til að mynda í gögnum frá utanríkisráðuneytinu, að þessar aðildarviðræður fela í sér að við þurfum að ráðast í grundvallarbreytingar á okkar kerfi, lagakerfi og stofnanakerfi, áður en samningaköflum er lokið þannig að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verður einnig marklaus af þeim sökum af því að það er ekki svo að við séum að fá samning á borðið og síðan verði kosið um hann.