138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[16:23]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að ég hef verið talsmaður þess að við Íslendingar sækjum um aðild að Evrópusambandinu er sú að ég vil að við verðum þjóð á meðal þjóða. Ég vil ekki að við verðum einangruð þjóð á sama tíma og aðrar þjóðir heims skipa sér í sveitir með það að markmiði að tryggja sameiginlega hagsmuni og stuðla að hagsæld þegna sinna. Þessa afstöðu byggi ég m.a. á reynslu minni eftir að hafa unnið fyrir íslensk sveitarfélög í Brussel í nokkur ár. Á þeim tíma reyndi ég það á eigin skinni hversu miklu máli það skiptir fyrir okkur að sækja og miðla reynslu, í þessum tilfellum í hinum fjölbreyttu verkefnum sem sveitarfélögum eru falin með lögum og reglum. Á þessum tíma reyndi ég það líka oft og mörgum sinnum hvernig við, fulltrúar íslenskra og norskra sveitarfélaga, sátum hjá og gátum ekki beitt okkur til að hafa áhrif á framvindu mála nema því aðeins að hagsmunir okkar færu algjörlega saman við hagsmuni sveitarfélaga í einhverju af aðildarríkjum Evrópusambandsins. Með öðrum orðum, frú forseti, við fylgdumst vel með undirbúningi reglusetninga en gátum aðeins haft takmörkuð áhrif á framvindu mála. Þann tíma sem ég starfaði í Brussel sá ég líka fjöldamörg tækifæri fara fram hjá íslenskum sveitarfélögum þar sem þau höfðu ekki, og hafa ekki enn þá, aðgang að ýmiss konar sjóðum og tengslanetum sem sveitarfélög aðildarríkjanna hafa.

Frú forseti. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með og taka þátt í undirbúningi stjórnsýslunnar og hagsmunasamtaka vegna væntanlegra aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Samstarf þessara aðila hefur verið með miklum ágætum, held ég að ég megi fullyrða, og skilningur á íslensku samfélagi, uppbyggingu stjórnsýslu, stoðkerfa o.fl. hefur aukist mikið á þessu tímabili. Veikleikar okkar og styrkleikar í samanburði við aðildarríki Evrópusambandsins eru ljósari en áður, þökk sé spurningalistunum stóru sem við fengum frá Evrópusambandinu en ekki síður áliti framkvæmdastjórnar sambandsins.

Eins og fram kemur í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra hafa undanfarnir mánuðir verið nýttir til að undirbúa væntanlegar aðildarviðræður. Hinir fjölmörgu þátttakendur í viðræðuhópunum hafa fengið fræðslu um kosti og galla Evrópusambandsins og mér segir svo hugur að hugmyndir margra um sambandið hafi breyst, jafnvel Bændasamtakanna. Þar kem ég að því sem mér finnst mestu máli skipta í orðræðunni sem mun eiga sér stað hér á landi næstu missirin, nefnilega þeirri ábyrgð sem hvílir á þeim sem fá tækifæri til að taka þátt í væntanlegum aðildarviðræðum.

Forustumenn Bændasamtakanna reyna þessa dagana að sannfæra þjóðina um að innganga í Evrópusambandið verði banabiti íslenskra bænda. Vandinn er bara sá að menn á þeim bæ vita betur og því er málflutningurinn ekki sannfærandi. Forustan hefur verið dugleg við að setja sig inn í landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins enda sitja fulltrúar samtakanna í þremur af tíu samningahópum landsins og vita því vel að innganga í Evrópusambandið mundi styrkja bændur á fjölmörgum sviðum. Hið dæmigerða íslenska fjölskyldubú er fyrirmyndarbú að mati Evrópusambandsins en vissulega munu kjúklinga- og svínakjötsframleiðendur eiga undir högg að sækja.

Kjarni landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins er að halda jörðum í ábúð og tryggja matvælaöryggi íbúa aðildarríkjanna. Um helmingi allra fjárveitinga sambandsins er varið til landbúnaðarmála, svo mikilvægur telst sá málaflokkur. Þannig vill Evrópusambandið stuðla að aukinni samkeppnishæfni landbúnaðar, m.a. með nýliðun í bændastéttinni og ýmiss konar nýsköpun, vöruþróun og markaðssetningu. Einnig leggur Evrópusambandið áherslu á að halda landi í ræktun og endurheimtingu náttúrusvæða eins og vot- og skóglendis. Síðast en ekki síst er lögð áhersla á að auka lífsgæði í sveitum, t.d. með því að styðja við fjölbreytta atvinnusköpun, stofnun smáfyrirtækja, sí- og endurmenntun bænda og varðveislu menningararfs.

Á Íslandi eru tæplega 6.500 jarðir en ekki nema rétt rúmlega 3.000 býli, 3.100 kannski. Sum býli nýta reyndar fleiri en eina jörð en mörg hundruð jarðir eru vannýttar eða illa nýttar. Ástæður þess eru margar en án efa spilar þar inn í hátt verð á mjólkurkvóta og offjárfestingar, m.a. með myntkörfulánum, auk þess sem auðmenn hafa verið duglegir við jarðakaup undanfarin ár. Víst er að á auðum jörðum liggja fjölmörg vannýtt sóknarfæri og eflaust dreymir marga um að hefja búskap í dag sem eygja enga möguleika á að fjármagna jarðakaup eða jarðaleigu. Stöðugur gjaldmiðill, t.d. við innkaup á aðföngum eins og tækjum og áburði, aðgangur að lánsfé á viðráðanlegum kjörum og aðgangur að mörkuðum, þekkingu og tengslaneti hlýtur að skipta bændur verulegu máli líkt og aðrar atvinnugreinar í landinu. Upptaka evru er aðeins í boði fyrir aðildarríki Evrópusambandsins, það vita allir sem fylgst hafa með gangi mála. Að halda öðru fram, eins og formaður Bændasamtakanna gerir án þess að blikna, er lýðskrum. Það skyldi þó ekki vera að innganga í Evrópusambandið mundi hleypa nýju lífi í vannýttar jarðir á Íslandi?

Ljóst er að styrkjakerfi landbúnaðarins á Íslandi mun breytast hvort sem við göngum í Evrópusambandið eða ekki. Þróunin er á þann veg um allan heim að dregið er úr framleiðslustyrkjum. Málflutningur bænda miðast við óbreytt ástand um ókomna tíð. Það er ekki raunhæft og því er að mínu mati skynsamlegra að skoða á víðsýnan hátt hvaða tækifæri og möguleikar felast í breytingunum.

Ég hef fulla trú á því, frú forseti, að íslenskir bændur verði verðugir fulltrúar lands og þjóðar meðal kollega sinna á meginlandi Evrópu. Ég er líka sannfærð um að hér á landi verður blómlegur landbúnaður um ókomna framtíð og að Íslendingar haldi áfram að kaupa íslenskar landbúnaðarafurðir þótt við göngum í Evrópusambandið. Markaðsrannsóknir styðja þá skoðun. Ég hvet bændaforustuna til að vera ábyrga í störfum sínum og nýta tímann á meðan á aðildarviðræðum við Evrópusambandið stendur til að benda félagsmönnum sínum á sóknarfærin fremur en að telja úr þeim kjarkinn. Það liggja fjölmörg sóknarfæri hjá íslenskum bændum innan Evrópusambandsins.

Uppbyggingarsjóðir Evrópusambandsins munu hafa mjög jákvæð áhrif á uppbyggingu á Íslandi, bæði í þéttbýli og dreifbýli, ef til aðildar Íslands að Evrópusambandinu kemur. Ekki einungis munu fjármunir sjóðanna koma okkur að góðum notum heldur ekki síður hugmyndafræði þeirra og samstarfsverkefni. Einn af uppbyggingarsjóðum sambandsins er svokallaður samstöðusjóður, á ensku Solidarity Fund, sem líkja má við Bjargráðasjóð en honum er ætlað að styrkja aðildarríki sem verða fyrir óvæntum áföllum vegna náttúruhamfara. Mér verður ósjálfrátt hugsað til eldgossins í Eyjafjallajökli í þessu sambandi og þess hversu gott hefði verið að geta leitað til samstöðusjóðsins nú þegar kemur að því að aðstoða bændur við uppbyggingu og lagfæra infrastrúktúr sem verður fyrir skakkaföllum og við vitum ekkert hvaða stefnu mun taka eða hvernig málið mun enda. Þar finn ég til ábyrgðar sem þingmaður Suðurkjördæmis, sem ég er svo lánsöm að vera líkt og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir talaði um hér fyrr í dag.

Frú forseti. Aðild Íslands að Evrópusambandinu snýst nefnilega um að vera þjóð á meðal þjóða, að geta leitað í eiginlega og óeiginlega sjóði annarra þjóða. Það er kominn tími til að við viðurkennum smæð okkar og það að við verðum mun sterkari í öllu tilliti með því að vera formlegur hluti af sambandi Evrópuríkja en að standa ein við að leysa öll þau verkefni sem hvert samfélag þarf að takast á við.