138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[16:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sá sem hér stendur þekkir ágætlega til sauðfjárræktar. Hv. þingmaður fór mikinn og talaði um að Bændasamtökin og bændur almennt væru að rakka niður Evrópusambandsumsóknina og fyndu henni allt til foráttu. Þetta er algjörlega rangt. Menn hafa verið að benda á þá þætti sem munu koma sér illa fyrir íslenskan landbúnað, munu koma sér illa fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Öll hagsmunasamtök í þessum atvinnugreinum hafa ályktað í þá veruna en Bændasamtökin eru þau samtök sem hafa lagst í það að skoða vandlega hvaða áhrif þetta muni hafa á íslenskan landbúnað.

Það er alveg klárt að tollverndin ein og sér mun koma mjög illa við mjólkurframleiðsluna. Íslenskir búfjárstofnar eru í hættu. Styrkjakerfið sem við höfum byggt upp er auðvitað þannig úr garði gert að því er hægt að breyta, það getum við gert á þinginu og hv. þingmaður getur lagt fram tillögur í þá veruna. En styrkjakerfið hefur verið að þróast í gegnum tíðina og í grófum dráttum er það í góðum farvegi. Þess vegna skil ég ekki af hverju hv. þingmaður heldur þessu fram og væri fróðlegt að fá að vita hvað það er nákvæmlega sem hv. þingmaður vill sjá breytast í landbúnaðarstefnunni. Hún getur þá lagt það fram á þinginu og látið Alþingi Íslendinga taka ákvörðun um það, því að það er jú Alþingi Íslendinga sem ætti að taka ákvarðanir um svona mál, hvernig svona þáttum er háttað.

Ég held að hv. þingmaður tali af mikilli vanþekkingu þegar hún talar um þessi landbúnaðarkerfi og ég hvet hv. þingmann til að kynna sér vel CAP-stuðningskerfið, hvaða afleiðingar það hefur haft í stuðningskerfunum í Suður-Evrópu og víðar og hvernig skiptingin á þessum fjármunum er, því að þar eru það ekki hin rómantísku fjölskyldubú sem hún er að reyna að draga upp sem njóta styrkjanna.