138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[16:39]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst mikilvægt að við setjum umræðu og hagsmuni bænda í víðara samhengi en oft er gert og mér hefur oft þótt einkenna málflutning bændaforustunnar. Ég vil undirstrika það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að mér finnst mikilvægt að bændaforustan taki heils hugar þátt í aðildarviðræðunum, axli ábyrgð í því verkefni og miðli til bænda um kosti þess og galla fyrir þá að ganga inn í Evrópusambandið.

Eins og ég kom inn á áðan, frú forseti, vitum við að styrkjakerfi íslensks landbúnaðar mun ekki vara að eilífu. Um það getum við rætt síðar í þinginu, það er ekki á dagskrá núna. (Gripið fram í.) En styrkjakerfi Evrópusambandsins er hvað sem öðru líður uppbyggingarsjóðir Evrópusambandsins, og landbúnaðarsjóðurinn, félagsmálasjóðurinn, sjávarbyggðasjóðurinn, samstöðusjóðurinn og svo mætti lengi telja nálgast viðfangsefnið að halda byggð í landinu hvar sem er, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli, nálgast það út frá heildstæðum hætti. Þar sé ég m.a. styrkleika bænda liggja. Við vitum að dreifbýlissjóðurinn leggur áherslu á að styrkja bændur til fjölbreyttrar atvinnustarfsemi. Við vitum líka að aðrir sjóðir líta til stærri eininga en bænda hvort sem þeir eru á stórum jörðum eða litlum jörðum.

Sveitarómantíkin sem þú talar um og íslenska fjölskyldubúið er sú eining sem þykir eftirsóknarverð og unnið er samkvæmt þeirri hugmyndafræði við að skoða og endurskoða landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins. Við munum njóta góðs af því þegar kemur að aðildarviðræðum. Við munum að sjálfsögðu standa vörð um íslenskan búfjárstofn, hross, sauðfé eða hvað annað, við munum að sjálfsögðu gera það því að við erum öll hjartanlega sammála um að við viljum halda okkar íslenska bústofni ómenguðum, ef svo má að orði komast.