138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Icesave.

[15:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er a.m.k. sammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni um að þau rök sem fram koma í rannsóknarnefndarskýrslunni veikja ekki stöðu Íslands. Sömuleiðis hef ég sagt í fjölmiðlum að núna hefur komið fram skýrsla í Hollandi, de Wit skýrslan sem við höfum séð í aðdragandanum fyrir þeirri þingnefnd sem rannsakaði fjármálin og fjármálastöðuna í Hollandi. Í þeirri skýrslu kemur líka fram að ábyrgðin er ekki öll Íslendinga eins og stundum hefur mátt lesa í hollenskum fjölmiðlum og það tel ég að hafi styrkt stöðu okkar Íslendinga.

Ég lagði það mat á stöðuna og hef gert það í framhaldi af samtölum starfsmanna minna við diplómata annarra ríkja að nú væri kominn tími til að láta reyna á það að taka aftur upp raunverulega samninga. Þeir hafa aldrei slitnað en þeir hafa legið niðri. Sömuleiðis skýrði ég út í fjölmiðlum að ég teldi að með útkomu þessarar skýrslu í Hollandi, ásamt því að kosningum í Bretlandi væri lokið að ef menn ætluðu að reyna að ná samningunum í gang fyrir hollensku kosningarnar væri tíminn núna. Það var ekkert sérstakt af minni hálfu sem gerði það að verkum að ég teldi nauðsynlegt að keyra samningana í gegn, ég hef ekki orðað það svo. Ég hef verið ánægður með það samstarf sem hefur tekist í þinginu um þetta mál. Ég hef sagt alveg skilmerkilega að mér finnst stjórnarandstaðan hafa komið málefnalega að því máli og ég tel að það væri fyrir allra hluta sakir ágætt að við Íslendingar gerðum reka að því að hafa frumkvæði að því að ná þessum samningum aftur í virkan gang núna. (BirgJ: Boltinn er hjá þeim.)