138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Icesave.

[15:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að koma aðeins inn á það fyrst vikið er að samstarfinu við stjórnarandstöðuna að framan af í þessu máli var það auðvitað ekki neitt. Ekkert samráð var haft við stjórnarandstöðuna og það var í raun og veru ekki fyrr en forseti Íslands hafði sent málið undir atkvæði þjóðarinnar sem samráð var tekið upp og það hefur í sjálfu sér gengið ágætlega þó að ekki hafi margt gerst. Okkur hefur a.m.k. tekist að koma saman hópi sérfræðinga sem hefur leitt viðræðurnar fyrir okkar hönd. Að aflokinni þjóðaratkvæðagreiðslunni og, það sem ég vildi vekja sérstaklega athygli á, eftir útkomu rannsóknarskýrslunnar með þeim langa kafla um Icesave-málið sem þar er að finna hljótum við að vera sammála um að staða okkar hefur skýrst og styrkst. Og það skiptir miklu máli þegar menn eru að fjalla um Icesave-málið og gera sig líklega til að koma því máli á einhverja hreyfingu. Það hljótum við að nýta okkur í samskiptum okkar (Forseti hringir.) við viðkomandi þjóðir.