138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Icesave.

[15:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Við nýtum okkur allt sem við getum í samskiptum okkar við aðrar þjóðir í þessum efnum. Það er hugsanlega rétt hjá hv. þingmanni að staða okkar hafi skýrst. Þó er ég þeirrar skoðunar að í rannsóknarnefndarskýrslunni komi ekki fram nein rök sem ekki voru mjög vel þekkt áður. Það eru einfaldlega mismunandi skoðanir á þessu máli.

Ég hef aldrei dregið dul á það, hvorki í umræðum í þinginu né annars staðar, að ég sjálfur kýs frekar að semja um þetta mál en að láta á lagaskyldu reyna. Ég hef fært rök fyrir þeirri afstöðu. Á sínum tíma sneri hv. þingmaður mér til þeirrar trúar með ágætri ræðu hér 5. desember 2008. Hann færði þá mjög sterk rök fyrir samningum sem ég varð þá sammála. Hann getur reynt að sannfæra mig um að hann hafi haft rangt fyrir sér á þeim tíma og kannski skipti ég um skoðun aftur. Ég er þó enn þessarar skoðunar.

Ég vona að það sé rétt hjá hv. þingmanni að staða okkar hafi styrkst. Ég vek eftirtekt hans eigi að síður á því að núna eru ýmsir erfiðleikar í Evrópu. Þar er verið að lána þjóðum stórar upphæðir og ég vek eftirtekt hv. þingmanns á þeim vaxtakjörum (Forseti hringir.) sem þar eru boðin. (Gripið fram í.)