138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

sala orku.

[15:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ríkisstjórnin mun fjalla um þetta á morgun eins og til stóð en ekki í því samhengi sem við hefðum óskað eftir, að sölunni hefði verið frestað þannig að færi hefði gefist á því að skoða málin í því ljósi. Ég held að öll ábyrg stjórnvöld hljóti að áskilja sér allan rétt við aðstæður af þessu tagi, hvernig sem því verður svo fyrir komið í löggjöf eða með öðrum hætti. Við höfum haft þá stefnu og erum með þá stefnu að það eigi að binda sameign á þjóðarauðlindum í stjórnarskrá. Aðrir í þessum sölum hafa komið í veg fyrir að það næði fram að ganga.

Í öðru lagi tek ég undir að það hefur dregist meira en góðu hófi gegnir að móta hér heildstæða og sterka löggjöf sem ver auðlindirnar sem tryggir að rentan gangi til þjóðarinnar óháð eignarhaldinu.

Í þriðja lagi á náttúrlega að standa vörð um það eignarhald ríkisins á þessum auðlindum sem er til staðar. Það var ekki í þessu tilviki og hefur ekki verið frá því að hinn takmarkaði hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja var seldur illu heilli. Síðan hefur þetta verið í eigu sveitarfélaga, sem hafa svo selt þetta frá sér, og einkaaðilans sem seldi í gærkvöldi. Frekari vinna og löggjöf er greinilega nauðsynleg í þessum efnum, (Gripið fram í: Stjórnarandstaðan …) þar á meðal að fara yfir lög um erlendar fjárfestingar og hvort við ætlum að hafa þá löggjöf eins og hún er nú, (Gripið fram í.) takmarkað hald í henni ef allir geta farið inn í gegnum Evrópska efnahagssvæðið með skúffufyrirtækjum og keypt það sem þeir vilja hér.

Að lokum skiptir máli, og ég fagna því að það sé samstaða um það í þessum sal, að sú einkavæðing orkufyrirtækja sem á döfinni var, þar með talið Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar, sé út af borðum og er þá nokkuð fengið ef það liggur fyrir. Það er ekki langt síðan að sú framtíð var ekki trygg að þær mikilvægu orkulindir sem ríkið góðu heilli á þó í gegnum eign sína á Landsvirkjun, Rarik og Orkubúi Vestfjarða (Forseti hringir.) væru a.m.k. í tryggum höndum. (Gripið fram í: Þú ert kominn í …)