138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

sala orku.

[15:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður rakti hér, nefnd um erlenda fjárfestingu komst að þessari niðurstöðu, þ.e. meiri hluti hennar taldi að ekki væri hægt að sanna að þarna væri um sniðgöngu að ræða eins og málsatvik lægju fyrir og m.a. líka vegna þess að það vantar viðmiðanir um það hvað skuli teljast sniðganga og hvað sé klár sniðganga. Minni hlutinn hafði aðra afstöðu, fulltrúi Vinstri grænna lagðist gegn þessu og taldi að þarna væri um að ræða ólögmæta fjárfestingu aðila utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Það er auðvitað ekki gott að við svo búið standi að um þetta sé ágreiningur og ég tek undir að málið þarf að skoða ofan í kjölinn. Að öðru leyti held ég að ekki sé mikill ágreiningur um að á viðsjárverðum tímum þegar ríkið á í miklum fjárhagserfiðleikum, og fjölmargir aðrir aðilar, skipti öllu máli að hlutir gangi ekki hér undan okkur þannig að til frambúðar verði auðlindirnar og verðmætin í innviðum samfélags okkar og mikilvæg þjóðarfyrirtæki (Forseti hringir.) ekki áfram í okkar höndum. En það er erfið varðstaða við þessar aðstæður eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmenn sjái og viðurkenni. (Gripið fram í: Þú ert ekki …) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Eigum við þá að hækka skattana?)