138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

auðlinda- og orkumál.

[15:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er ekki dómbær á skaplyndi hæstv. fjármálaráðherra í dag. Í mínum augum er hann alltaf glaðbeittur og brosandi og þessi dagur er ekkert frábrugðinn öðrum dögum um það. (Gripið fram í.)

Svarið að öðru leyti er játandi. Þau lög sem hv. þingmaður spyr um eru enn í gildi. Hafi þau verið afnumin á hinu háa Alþingi hefur það a.m.k. farið fram hjá mér. Í öðru lagi er alveg ljóst að samkvæmt þessum lögum er auðlindin enn þá í samfélagslegri eigu, það er algjörlega skýrt. Svo er fyrir að þakka hinni breiðu samstöðu sem á sínum tíma tókst um að vernda auðlindirnar. Þá blasti það við að þetta fyrirtæki hefði hugsanlega með manni og mús getað lent í öðrum höndum, auðlindirnar líka, dreifiveiturnar líka.

Mér finnast grundvallaratriðin í þessu máli vera tvö. Í fyrsta lagi er spurningin: Er auðlindin áfram í samfélagslegri eigu? Svarið er: Já. Í öðru lagi: Eru lög í landinu sem vernda neytendur gegn því að fyrirtæki á einkamarkaði sem eignast orkuframleiðslufyrirtæki geti beitt þeirri stöðu til að hækka verðið án málefnalegra raka til neytenda? Svarið er: Já. Þau lög hafa verið í gildi í u.þ.b. tíu ár. Þetta eru prinsippin tvö sem mér finnst að eigi að varða leiðina í umræðu um málið. Það er algjörlega skýrt að það er ekki hægt að selja auðlindir sem eru í samfélagslegri eigu úr forsjá hins opinbera. (Gripið fram í.) 12% auðlindanna eru eigi að síður í einkaeigu og verða það áfram, það kemur líka skýrt fram í þessum lögum — nema Alþingi kjósi eitthvað annað. (Gripið fram í.)