138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

auðlinda- og orkumál.

[15:29]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir mjög skýr svör. Það er ekki alltaf sem maður fær svona skýr frá hæstv. ráðherra þannig að ég er mjög ánægð með þau.

Ég sé þá ekki ástæðu fyrir hæstv. umhverfisráðherra til að vera með þau ummæli sem ég heyrði í kvöldfréttum í gær, að nú væri verið að setja auðlindir okkar á alþjóðlegt markaðstorg. Ég ætla að biðja hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra, sem var formaður hv. iðnaðarnefndar þegar þessi lög voru sett og við áttum í góðu samstarfi, að taka umræðuna við ríkisstjórnarborðið. Ég fæ kannski að vera gestafyrirlesari í þingflokki Vinstri grænna vegna þess að það er algjörlega kristaltært að orkuauðlindir eru samkvæmt lögum enn þá í opinberri eigu. Ég held ekki heldur að þau hafi verið felld úr gildi, það hefur þá verið gert algjörlega án vitundar okkar beggja. Ég vil skýra þetta bara algjörlega út svo menn geti farið að hafa áhyggjur af öðrum hlutum. Það er víst nóg af þeim sem við (Forseti hringir.) getum sameinast um að hafa áhyggjur af.