138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við afleiðingum eldgosa.

[15:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Vegna þeirra orða sem hér hafa fallið um stefnu Framsóknarflokksins í sambandi við náttúruauðlindir er það afar skýrt og það gleður mig að geta sagt það hér enn og aftur að það hefur lengi verið á stefnuskrá Framsóknarflokksins að tryggja skuli að náttúruauðlindaeign þjóðarinnar verði tryggð og sett í stjórnarskrá.

Ég ætlaði reyndar að ræða aðra hlið náttúrunnar við hæstv. fjármálaráðherra. Eins og alþjóð veit og allir hér inni hafa oftast í huga, þó að ekki sé kannski nægilega oft minnst á það úr þessum ræðustól, eiga sér stað náttúruhamfarir, hér er eldgos sem engan endi virðist ætla að taka. Það er dálítið langt síðan við tókum umræðu í þinginu um þær aðgerðir sem ríkisvaldið hefur gripið til. Mér fannst því æskilegt og nauðsynlegt að taka það aðeins upp og ræða það við hæstv. fjármálaráðherra, sem er annað höfuð ríkisstjórnarinnar, þar sem mörg ráðuneyti koma að þeim úrlausnum og þeim verkefnum sem við blasa austur í sveitum. Það eru sem sagt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, umhverfisráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og viðskipta- og efnahagsráðuneytið að minnsta kosti. Þess vegna langar mig að spyrja nokkurra spurninga um hvernig gengur að tryggja fjármagn til ýmissa þeirra verkefna sem þar eru í gangi. Það hefur til að mynda verið nefnt að koma þurfi á ýmiss konar félagslegri þjónustu sem ríkisvaldið þyrfti að koma að, t.d. við að skipuleggja heymiðlun, útvega hey, gera fóðuráætlun, sjá um afleysingaþjónustu fyrir bændur og afla beitarhólfa innan þeirra varnarlína sem fyrir eru.

Þá langar mig einnig til að benda á að nauðsynlegt er að velta fyrir sér hvaða fjármuni ríkisvaldið mun hafa í sambandi við náttúruhamfarir almennt. Viðlagatrygging er gríðarlega sterkur sjóður en aðrir (Forseti hringir.) sjóðir sem við eigum aðgang að eins og Bjargráðasjóður og fyrirhleðslusjóður eru fjárvana og ríkissjóður jafnframt. Hefur fjármálaráðuneytið eða hæstv. ráðherra beitt sér innan ríkisstjórnarinnar að breytingu (Forseti hringir.) á lögum um Viðlagatryggingu til þess að tryggja megi fjármuni þaðan eða uppsetningu á einhverjum hliðarsjóði við Viðlagatryggingu sem tæki á svona svæðum sem eru á gráu svæði?