138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það verði ekki um það deilt að gjaldeyrishöftin, hvað sem mönnum finnst um þau, hafa veitt krónunni mikilvægt skjól og um það er rækilega fjallað núna í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem birt voru 5. maí sl. Þar kemur einnig fram að án þeirra hefði lækkun vaxta vart verið möguleg í þeim takti sem raun ber vitni, þvert á móti er líklegt að vextir væru umtalsvert hærri án þeirra. Það þarf ekki að fara orðum um hversu skaðlegt slíkt væri fyrir skuldsett heimili og fyrirtæki í landinu. Þá má við því búast að greiðsluerfiðleikar og gjaldþrot hefðu orðið mun fleiri en ella og þykir okkur þó nóg um. Það hefði svo aftur ýtt undir enn frekari veikingu gjaldmiðilsins ef innviðir efnahagslífs okkar hefðu enn veikst.

Þá segir enn fremur í Peningamálum að höftin hafi gegnt í raun lykilhlutverki að þessu leyti í endurreisn þjóðarbúsins og án þeirra telur Seðlabankinn t.d. að evran hefði getað farið í um 300 kr. Höftin hafa nú virkað mun betur en áður frá því í nóvember á síðasta ári þegar þau voru hert og á meðan þau eru á að framfylgja þeim og láta þau virka. Afleiðingu af þessu sjá menn m.a. í meiri gengisstöðugleika og tiltölulega jákvæðri þróun undanfarna mánuði þar sem krónan hefur heldur styrkst. Þessi gjaldeyrishöft eru hluti af þeirri efnahagsáætlun sem Ísland vinnur með í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þau eru þannig talin samræmast og standast okkar alþjóðlegu skuldbindingar. Hitt er svo ljóst, og ég held að það séu allir sammála um það, að það verður verulegt óhagræði og kostnaður af slíkum höftum eða viðskiptahindrunum þegar fram líða stundir. Það er ekki það fyrirkomulag sem við óskum okkur. Hitt má líka nefna að hin djúpa alþjóðlega fjármálakreppa og kannski sá skortur á fjárfestingum sem almennt hefur verið hefur takmarkað áhrif þeirra að þessu leyti enn sem komið er.

Í ágústmánuði sl. var samþykkt áætlun um afnám gjaldeyrishafta í skrefum og fyrsta stigið í þeim efnum tekið í nóvember sl. þegar innstreymi erlends gjaldeyris til nýfjárfestinga var heimilað og sömuleiðis útstreymi vegna þeirra fjárfestinga. Það er mikilvægt að Seðlabankinn geti nú fylgt eftir þessum áætlunum sínum um afnám haftanna í skýrt afmörkuðum og yfirveguðum skrefum. Seðlabankinn hefur sjálfur sagt að mikilvægt sé að ljúka þriðju endurskoðun efnahagsáætlunarinnar og styrkja enn frekar gjaldeyrisvaraforðann með þeim lánum sem þá opnast aðgangur að áður en næsta skref eða stórt skref verður tekið. Það má ekki fara þannig að afnám haftanna verði til að lækka umtalsvert gengi krónunnar eða stefna efnahagsbatanum í tvísýnu.

Það má jafnvel nefna að Ísland hefur á vissan hátt verið í nokkru skjóli gagnvart þeim miklu erfiðleikum sem hafa nú herjað á skulda- og gjaldeyrismarkaði heimsins vegna vandræða evrusvæðisins, þannig að fátt er svo með öllu illt. Í þessari áætlun sem ég nefndi um afnám gjaldeyrishaftanna segir m.a. um ástæður þess að þau voru innleidd, með leyfi forseta:

„Á tímabilinu 2005–2008 varð umtalsvert innstreymi fjármagns til Íslands. Mikill vaxtamunur við útlönd og hækkandi gengi krónunnar laðaði að alþjóðlegt fjármagn, að hluta til gegnum „venjulegar“ fjárfestingar og að hluta til með skuldaskjölum (svokölluðum jöklabréfum) sem voru gefin út gagngert til þess að hagnast á þessum aðstæðum. Innstreymi fjármagns tengdist einnig íslenska fjármálakerfinu og lántökum íslenskra fyrirtækja á alþjóðamörkuðum. Af þessum ástæðum áttu erlendir fjárfestar miklar fjáreignir í íslenskum krónum. Hluti þeirra voru innleysanlegar strax eða árin 2009–2010 þegar bréfin féllu á gjalddaga. Stöður erlendra aðila í íslenskum krónum námu í heild 680 milljörðum kr. síðla árs 2008. Skammtímastöður námu í heild u.þ.b. 330 milljörðum kr. Í október 2008 varð Ísland fyrir barðinu á óvenju umfangsmikilli bankakreppu. Minnkandi tiltrú á íslenskum fjáreignum sem fylgdi í kjölfarið skapaði hættu á stórfelldu útstreymi fjármagns, með afar háskalegum afleiðingum fyrir gengi krónunnar sem þegar hafði lækkað. Mikið útstreymi fjármagns (strax og í kjölfarið) hefði getað valdið enn stórfelldari gengislækkun krónunnar og meiri verðbólgu en raun varð á. Þar sem efnahagsreikningar heimila og fyrirtækja einkennast bæði af mikilli skuldsetningu og háu hlutfalli lána í erlendum gjaldmiðlum og verðtryggðum lánum, hefði þetta getað hrundið af stað mikilli hrinu vanskila, með óhagstæðum afleiðingum fyrir þjóðarbúskapinn. Vegna þessa greip Seðlabanki Íslands til aðgerða hinn 10. október 2008, sem miðuðu að því að hefta tímabundið útflæði gjaldeyris. Í ljósi hinnar miklu áhættu fyrir þjóðarbúskapinn var talið að gjaldeyrishöft, þrátt fyrir að vera óheppileg, væru óhjákvæmilegur þáttur aðgerða er miðuðu að því að stuðla að stöðugleika krónunnar þegar millibankamarkaður með erlendan gjaldmiðil var opnaður á ný í byrjun desember 2008.“

Þetta er forsagan. Ég tel að okkur hafi nú þegar orðið talsvert ágengt í því að vinna þennan vanda niður. Hann er mun minni nú en þær stærðir sem ég nefndi til samanburðar frá árinu 2008 teiknuðu til. Frekari aðgerða getur verið að vænta í þeim efnum sem gera okkur betur í stakk búin til að takast á við næstu skref, þ.e. bæði að ná betur utan um (Forseti hringir.) krónueign erlendra aðila og styrkja gjaldeyrisvaraforðann enn frekar þannig að næstu skref verði stigin.