138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:49]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir að hefja þessa utandagskrárumræðu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum hér á hinu háa Alþingi hvort og þá hvernig og hvenær við ætlum að afnema gjaldeyrishöftin.

Þegar þau voru sett á 10. október 2008 höfðum við þingmenn Framsóknarflokksins efasemdir um þann gjörning, jafnvel meiri en sjálfstæðismenn á þeim tíma. Ég held samt að þegar þetta frá líður hafi tíminn leitt í ljós að þau hafa svo sannarlega veitt krónunni skjól og ég held að mun betra sé að hafa þau en ekki.

Ég held að það verði að forgangsraða. Í mínum huga skiptir meira máli að lækka stýrivexti þannig að við missum ekki þá sem eiga hér jöklabréf út úr hagkerfinu á einu bretti. Við getum horft til þess sem gerðist í Argentínu í þeim efnum.

Ég held að það sé líka mikilvægt að við lækkum stýrivexti enn þá hraðar, ekki bara fyrir atvinnulífið heldur líka vegna þess að það er gríðarlega dýrt fyrir ríkissjóð að halda uppi jafnháum vöxtum og raun ber vitni. Ég tel að ríkissjóður hafi nú þegar tapað jafnvel tugum milljarða á því.

Þess vegna segi ég: Það skiptir máli að rasa ekki um ráð fram. Ég get á margan hátt tekið undir ræðu hæstv. fjármálaráðherra en tek samt undir með þeim sem hóf þessa umræðu að mikilvægt er að ræða þessi mál og það væri líka gott ef aðgerðaáætlun kæmi frá ríkisstjórninni í þeim efnum.