138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:58]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Gjaldeyrishöftin hafa dregið úr gengisfalli krónunnar og tryggt gengisstöðugleika. Vandamálið við gjaldeyrishöftin er að afnám þeirra getur verið afar dýrt fyrir skattgreiðendur. Dæmi um dýra útgönguleið er áætlun AGS sem felst í að byggja upp digran gjaldeyrissjóð með lántökum. Gjaldeyrisvarasjóðurinn á að auka á trúverðugleika krónunnar og leiða til styrkingar hennar þannig að hægt verði að afnema höftin.

Bara vaxtakostnaðurinn af gjaldeyrisvarasjóðslánunum mun nema um 20 milljörðum á ári. Auk þess er gert ráð fyrir að gjaldeyrisvarasjóðurinn verði notaður til inngripa til að koma í veg fyrir gengislækkun krónunnar þegar byrjað er að afnema gjaldeyrishöftin. Slík aðgerð þýðir að fjármagnseigendur sem vilja fara út fá gjaldeyri á mun lægra krónuverði en markaðurinn er tilbúinn að greiða. Mismunurinn er greiddur af skattgreiðendum.

Útgönguleiðin sem ég vil að við förum er að lækka vexti verulega. Fjármagn mun þá flæða út úr bankakerfinu í fjárfestingar í atvinnulífinu og útstreymisþrýstingurinn minnkar. Síðan þarf að koma á uppboðsmarkaði fyrir gjaldeyri þannig að þeir sem vilja fá hærra verð fyrir gjaldeyrinn sinn en skráð gengi krónunnar er og þeir sem vilja borga hærra verð fyrir gjaldeyrinn gætu gert slík viðskipti innan lands. Umframverðið félli í skaut innlendra aðila og ríkið gæti síðan skattlagt umframverðið.

Kosturinn við uppboðsleiðina er að Seðlabankinn getur stýrt framboði króna á gjaldeyrismarkaði og þannig tryggt hægfara afnám gjaldeyrishaftanna. Þessi leið til að afnema gjaldeyrishöftin er ódýrasta leiðin fyrir skattgreiðendur.