138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

afnám gjaldeyrishafta.

[16:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hérna talsvert um hvort setja hefði átt gjaldeyrishöftin á eður ei. Við getum nú öll verið sammála um að enginn veit hvað hefði gerst ef við hefðum ekki sett þau á, krónan hefði fallið og hér hefðu dælst út krónur og jöklabréf í stórum stíl. Við getum kannski sagt það eftir á að við höfum staðið nokkuð vel að þessu þegar á heildina er litið án þess að við vitum hvað hefði gerst annars. Krónan hefur styrkst mikið miðað við evru, um 10–11% frá áramótum, held ég, og það meira að segja eftir að hið margfræga Icesave-mál fór frá hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórninni í þann farveg sem við framsóknarmenn og stjórnarandstaðan höfum talað fyrir og börðumst fyrir í allt fyrrasumar og haust. Guði sé lof að við tókum ekki upp evru með tilheyrandi 25–30% atvinnuleysi sem hefði e.t.v. gerst ef við hefðum verið komin með evruna fyrir löngu. Þegar við horfum á það fjárflæði og eignaflæði sem er frá Grikklandi þessa dagana held ég að við eigum líka að þakka guði fyrir að hafa ekki verið búin að taka upp evruna.

Varðandi krónuna sjálfa þurfum við að velta því fyrir okkur í dag hvernig við sjáum hana fyrir okkur næstu 10–20 árin því að það er ljóst að hér verður hún og gjaldeyrishöftin gætu verið býsna lengi hér ef við höfum ekki neina áætlun um hvernig við ætlum að losa okkur við þau, sem við verðum auðvitað að hafa. Við verðum að setja upp einhverja áætlun um það hvernig við losum þau, en á sama tíma verðum við að hafa áætlun um hvernig krónan á að styrkjast.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Lilju Mósesdóttur sem nefndi að besta leiðin væri að lækka vexti og hafa uppboðsmarkað á krónum, sem við framsóknarmenn lögðum til í febrúar 2008. Það hefði kannski verið nær að fólk hefði hlustað á það. Það er því ýmislegt sem við getum gert.

Við þurfum fyrst að horfa til skemmri tíma, að krónan styrkist, sem hún mun gera ef við sjáum bara hversu öflug hún er við að afla gjaldeyris og tryggja atvinnu í þessu landi. Auðvitað hefur hún þó valdið því að hér eru launakjör (Forseti hringir.) þannig að við horfum kannski með öfund til (Forseti hringir.) ársins 2007, en ég held að það sé líka það eina við það ár sem við hugsum til með öfund.