138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

afnám gjaldeyrishafta.

[16:04]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mér hefur nú heyrst svolítið á þingmönnum að þeir tali eins og þeir séu frá einhverri annarri plánetu. Hér tala menn um að það þurfi að komast aftur á jafnvægi í efnahagsmálum. Það hefur aldrei verið jafnvægi í efnahagsmálum á Íslandi. Það hefur verið stöðugur óstöðugleiki, það er góð lýsing, það á við um íslensk efnahagsmál, það hefur verið stöðugur óstöðugleiki. Það er því draumsýn að hér komist á jafnvægi í efnahagsmálum.

Ég tek undir hugmyndir hv. þm. Lilju Mósesdóttur um aðferðir við að afnema gjaldeyrishöftin og nauðsyn þess að lækka vexti. Það dapurlega er, eins og ég sagði áðan, að það eru sömu embættismennirnir sem ráða ferðinni enn þá, það skiptir ekki hvaða ríkisstjórn er við völd heldur er það embættismannakerfið sem stýrir fleyinu áfram. Og hver er stefnan? Ég óska einfaldlega eftir því að hæstv. fjármálaráðherra svari því áður en þessari umræðu lýkur. Það verða væntanlega afnumin hér gjaldeyrishöft smám saman og hefst á ný frjálst flæði fjármagns milli Íslands og annarra landa. Það mun auka verðbólgu og til þess að halda verðbólgunni niðri þarf að hækka vextina aftur. Það mun aftur leiða til innstreymis gjaldeyris og nýrra jöklabréfa o.s.frv. Þetta er stefnan í efnahagsmálum.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Af hverju er verið að fara aftur í sama farið? Af hverju er ekki búin til ný stefna sem mundi kannski tryggja stöðugleika? Ég átta mig ekki á því hvernig það verður gert.

Sú stefna sem nú er verið að framfylgja mun ekki tryggja stöðugleika, það er alveg gefið mál. Það er bara dapurlegt að heyra fólk tala í þessum tóni. Það þarf að gera einhverjar róttækar breytingar á gjaldmiðlinum, hvort sem það er að taka upp nýjan gjaldmiðil eða annað, það þarf nýja hugsun í þetta. Það þýðir ekki að láta þá gömlu (Forseti hringir.) embættismenn sem leiddu okkur hingað finna réttu leiðina.