138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

afnám gjaldeyrishafta.

[16:07]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir málefnalega og góða umræðu.

Hæstv. fjármálaráðherra las hér upp úr plöggum Seðlabankans og vitnaði í alþjóðlegar skuldbindingar sem við höfum undirgengist með því að skrifa undir samning við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þetta er allt saman satt og rétt sem þar kom fram. Það er jafnframt algjörlega ljóst að ef við höfum einhverja áætlun sem er sannfærandi og gengur til að komast út úr gjaldeyrishöftum mun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki standa gegn því vegna þess að sá sjóður hefur verið á móti gjaldeyrishöftum allt frá stofnun.

Jafnframt benti ég á leið sem fólst í því að einangra erlenda krónueign hér á Íslandi þannig að ekki kæmi til snöggt útflæði. Ef við þurfum að halda í gjaldeyrishöftin til þess að halda peningum almennings á Íslandi inni, vantar ekkert nema það að fólk hafi trú á íslensku efnahagslífi. Það stendur upp á hæstv. fjármálaráðherra að blása fólki þá trú í brjóst. Ef hæstv. ráðherra treystir sér ekki til þess vill hann væntanlega hafa höftin áfram.

Ég endurtek að ég þakka fyrir þessa umræðu en um leið auglýsi ég eftir því hvenær við megum eiga von á því að þessi höft verði afnumin.