138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[16:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu lögum um Bjargráðasjóð og breytingu á framleiðslu og verðlagningu og sölu á búvörum. Það er auðvitað vegna þeirra náttúruhamfara sem standa yfir sem menn reyna að finna leiðir til að bregðast við og til að aðstoða þá bændur sem orðið hafa fyrir mestu tjóni. Því miður, eins og komið hefur fram hjá hv. þingmönnum sem tekið hafa til máls, horfum við ekki á orðið „tjón“ og getum brugðist strax við því heldur getur tjónið þess vegna haldið áfram að aukast. Við vitum ekki umfang þess til hlítar þótt öll vonum við auðvitað að gosinu fari að ljúka svo við getum farið í tiltekt og endurreisn og áttað okkur á þeim úrræðum sem grípa þarf til.

Hér er sem sagt verið að opna á nokkur úrræði sem tengjast í fyrsta lagi kúabændum, í öðru lagi sauðfjárbændum og í þriðja lagi því að hækka þak þess framlags sem ríkið veitir árlega til Bjargráðasjóðs.

Ég hef rætt það hérna í tví- eða þrígang í þinginu að til lengri tíma litið tel ég það væri skynsamlegt og æskilegt að við mundum til hliðar við Viðlagatryggingu setja upp einhvern sjóð sem væri sveigjanlegri í þessu sambandi til þess að við værum ekki að trufla viðlagatryggingarsjóðinn okkar. Hann er gríðarlega öflugur og stendur vel, með 37 milljarða á bak við sig, ef ég man rétt, og er þar af leiðandi vel fær um að takast á við þær náttúruhamfarir sem við getum alltaf búist við að lenda í hér á þessu ágæta landi okkar. En engu að síður eru ýmis grá svæði sem þarf að skoða og við í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd erum að reyna það hér með því að leggja fram þetta frumvarp að bregðast við hluta af vandanum.

Ég hefði talið að það væri skynsamlegt að við færum að vinna að því að setja á laggirnar sjóð sem væri til hliðar við Viðlagatrygginguna og fengi hugsanlega fjármuni að hluta til frá Viðlagatryggingu á næstu árum þar sem fjármunir eru ekki á lausu, hvorki hjá ríkisvaldinu né annars staðar. Þeir gætu farið inn á þau svið þar sem ekki er alveg tryggt að falli undir lög um Viðlagatryggingu, Bjargráðasjóð eða aðra sjóði, t.d. landbótasjóð og fyrirhleðslusjóð Landgræðslunnar sem eru líka tómir eða ekki nægilegir fjármunir í. Þessir fjármunir gætu bætt tjónið og farið í fyrirbyggjandi aðgerðir til þess að forða frekara tjóni.

Ég lýsi yfir stuðningi við þetta mál, enda leggur nefndin þetta fram. Ég hvet til þess að því verði vísað til 2. umr. sem fyrst hér í þinginu.

Varðandi þau ákvæði sem snerta kúabændur held ég að það sé að verða nokkuð augljóst að ef svona heldur áfram verði erfitt fyrir fólk að búa þarna næstu eitt eða tvö árin. Þá koma til ákvæði í þessum breytingum um að bændur geti flutt búfénað sinn á aðra bæi og framleitt þar en þeir fái engu að síður hluta af beingreiðslum áfram til þess að standa undir þeim kostnaði sem þeir hafa af því.

Ef gosið mundi nú hins vegar gera okkur þann greiða að hætta og veðráttan yrði heppileg mætti auðvitað horfa til þess að kúabændur hefðu skepnur sínar inni næsta árið, þeir gæfu skepnunum inni og öfluðu síðan heyja annars staðar. Það væri ekki stórmál að koma því þannig fyrir.

Varðandi sauðfjárbændurna hefur mér sýnst á liðnum dögum að þar geti dýraverndunarsjónarmið komið við sögu. Auðvitað er ekki hægt að byrgja sauðfé inni, það vita allir, það þarf að komast út. Það verða ekki beitarskilyrði eða lífvænlegt fyrir þær skepnur sem þarna eru. Auðvitað má segja sem svo að um leið og skepnurnar eru farnar af svæðinu getur fólk yfirgefið svæðið tímabundið og komið þarna til hreinsunarstarfa þegar gosinu lýkur. Ég held að að við verðum að horfast í augu við að það er mjög erfitt að vera á þessum svæðum í þeim gosmekki sem þarna er, í ösku og svifryki alla daga.

Af því hv. þm. Atli Gíslason, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, og Einar K. Guðfinnsson komu inn á það, gætum við jafnvel þurft að leggja fram aðrar breytingar sem tengjast flutningi sauðfjár á önnur svæði og kanna möguleika á því hvort hægt sé að flytja það til baka. Það er auðvitað fullt af ágöllum við það og við þurfum að skoða vel hvaða hagsmuni við erum að verja með þeim varnarlínum sem við höfum sett upp til þess að forðast útbreiðslu annarra sjúkdóma.

Ég held að við ættum jafnvel að velta því hér fyrir okkur að það verði erfitt að halda sauðfé á næstu tveimur árum á sumum af þessum svæðum einfaldlega vegna þess að beitarskilyrði verða ekki fyrir hendi. Það verði jafnvel að grípa til svipaðra úrræða og gert er gagnvart þeim sem verða að skera niður fé sitt vegna riðuveiki, að þeir fái að taka fé síðar meir. Féð í dag yrði hugsanlega flutt á önnur svæði og til slátrunar í haust en síðan ættu menn þess kost að taka nýtt fé að ákveðnum tíma liðnum. En það er ekki til umfjöllunar í þessum lögum. Ég legg til að við reynum að drífa þennan hluta í gegn til þess að menn geti tekið þær ákvarðanir með lagalegan bakstuðning sem til þarf. En við þurfum að taka aðra þætti sem gætu komið upp til skoðunar sem allra fyrst.