138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[16:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fyrir að taka frumkvæði og flytja þetta mál. Eins og hv. þm. Atli Gíslason, formaður nefndarinnar, hefur gert grein fyrir, felst það annars vegar í breytingu á lögum um Bjargráðasjóð, þar sem fellt er niður það hámark sem sett var í lögin um fjárstuðning ríkisins við sjóðinn. Þá verður hann betur í stakk búinn til að axla þá ábyrgð sem honum ber samkvæmt lögum og afdráttarlaus yfirlýsing hefur verið gefin um af hálfu ríkisstjórnarinnar, eins og öllum er kunnugt.

Hins vegar eru það atriði sem lúta að því að bændur geti haldið tekjum sínum, beingreiðslum, framleiðsluheimildum og öðrum slíkum tekjum sem þar er um rætt samkvæmt lögunum, þótt þeir verði að flytja með bústofninn tímabundið af jörðinni á aðra jörð, eða láta af búskap tímabundið.

Það er mjög mikilvægt að þetta komi strax fram og verði að lögum sem allra fyrst, þannig að hægt sé að fara að vinna á grundvelli þeirra. Bændur á viðkomandi svæðum geta þá hagað málum sínum í ljósi þessa. Næg eru verkefnin önnur að takast á við.

Ég vil einnig geta þess að ég tel að stjórnsýslan hafi brugðist hratt og vel við. Það er nokkuð síðan að settar voru reglur af hálfu Bjargráðasjóðs um hvernig skyldi komið að þessum málum. Það er heimilt í 11. gr. laga um Bjargráðasjóð að taka sérstaklega og sértækt á bótaskyldu tjóni í einu byggðarlagi eða fleirum og getur þá stjórn Bjargráðasjóðs skipað nefnd til þess að rannsaka tjónið og gera tillögu til stjórnar sjóðsins um aðstoð vegna þess. Þarna er því heimild til þess að taka á málum sem geta verið fjölþætt í heilu byggðarlagi, en lúta að bótaskyldu og aðkomu Bjargráðasjóðs. Um þetta hafa verið settar sérstakar reglur sem kynntar hafa verið.

Ég veit að bæði stjórnarformaður Bjargráðasjóðs og starfsmenn hans hafa farið um svæðið og verið þar frá upphafi. Þeir hafa fylgst með málum og gefið upplýsingar eftir því sem tök hafa verið á. Þegar lögin og reglugerðin liggur fyrir, er hægt að vinna á grundvelli þess.

Ég vil líka geta þess að starfsmenn Bændasamtakanna, Búnaðarsambands Suðurlands og sveitarfélaga á svæðinu og annarra sem þarna hafa átt hlut að máli, hafa unnið vel og skipulega að mínu mati. Sérfræðingar og starfsmenn búnaðarsambandanna og sveitarfélaganna, hafa heimsótt, að ég held, vel flesta bæi þar sem tjón hefur orðið. Farið hefur verið yfir stöðuna og hvernig hver og einn metur sína stöðu, hvað er til úrbóta og hvernig á að bregðast við.

Landgræðslan hefur einnig komið að þessu máli. Ég var á fundi í gærkvöldi með þeim aðilum, aðgerðahópi undir forustu Sigurgeirs Þorgeirssonar, ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, yfirdýralækni og Matvælastofnun og öðrum aðilum sem þarna eiga hlut að máli frá stjórnsýslunnar hálfu, og svo með heimamönnum. Í gærkvöldi var farið yfir stöðuna sem laut að búskaparlegum þáttum. Sérstaklega var farið yfir stöðu sveitabænda, því eins og hér hefur komið réttilega fram, stendur sauðburður sem hæst. Víða er komið fram á seinni hluta sauðburðar og ekki er hægt að hafa borið fé lengi inni, í öskufalli, þótt hey séu í sjálfu sér nóg. Á fundinum í gær var mér greint frá því að það væri komið vel á veg að útvega allmikið land innan sama hólfs. Þetta er fyrst og fremst í Meðallandi og þar fyrir austan. Þar eru svæði sem eru tilbúin til þess að taka við fé nú þegar, auk þess sem verið er að afla heimilda og búa land þar undir að taka á móti fé. Eftir því sem mér fannst umræðan vera í gær, af hálfu aðila sem þekktu flestir vel til þarna, væri þar mikið og í sjálfu sér gott land til að taka á móti velflestu af því fé sem gæti verið um að ræða og þyrfti að flytja til.

Bændur sem óska eftir að flytja fé sitt austur eftir, geta nú þegar snúið sér til búnaðarfulltrúa Búnaðarsambands Suðurlands. Ég býst við að það geti byrjað ekki seinna en á morgun. Það þarf í sjálfu sér ekki að flytja allt í einu á þeim stöðum þar sem fólk getur haft sauðféð inni og heima við. Það er hægt að taka ærnar með elstu lömbunum og flytja þær fyrst o.s.frv.

Ég tel að í þeim erfiðleikum og óvissu sem bændur standa frammi fyrir séu þó til úrlausnir og hægt að vinna úr stöðunni með þokkalegum hætti, eftir því sem tök eru á.

Síðan er verið að taka á öðrum þáttum og meta þá, eins og hver staðan verður ef gosið heldur áfram til lengri tíma og hvernig á að bregðast við því. Eins og hér hefur komið fram getur vel verið að það þurfi aðrar lagabreytingar en þessar til að bregðast við atvikum sem upp kunna að koma.

Ég vil fullvissa alla, bæði þingmenn og bændur og fólk á svæðinu, um að allt verði gert af hálfu stjórnvalda til þess að aðstoða fólk til að gera það besta úr því sem þarna er við að fást.

Eftir því sem ég best veit verður kynningarfundur í kvöld á Heimalandi þar sem verður farið yfir málin með þeim sem búa í nágrenni svæðisins. Það er einnig verið að fara yfir málin með þeim sem búa austar á gossvæðinu.

Það er alveg víst að hugur okkar stendur með því fólki sem þarna tekst á við óblíð náttúruöflin, ekki aðeins fyrir sjálft sig, heldur einnig skepnur sínar og lífsviðurværi. Hugur okkar er með þeim og er aðdáunarverður sá dugnaður sem þarna er sýndur, samhjálp og samvinna, ekki aðeins af heimafólki heldur líka landsmönnum öllum sem vilja bjóða fram hönd sína til þess að létta undir og koma til aðstoðar. Það er afar mikilvægt í aðstæðum eins og þessum, og í samhuginum er fólginn mikilvægur styrkur.

Ég hef í sjálfu sér litlu við þetta að bæta. Það er mjög ánægjulegt að heyra orð hv. þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum sem hér hafa komið upp. Hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd er einhuga í flutningi á frumvarpinu og ég fagna því. Ég býst einnig við að eiga gott samstarf við nefndina ef brýn nauðsyn ber til að flytja breytingar á öðrum lögum og/eða þessum, til að mæta því sem upp kann að koma. Ég finn að það er einhugur allra í þeim efnum og ég fagna því.