138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[16:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta innlegg. Við Rangæingar erum þakklát fyrir þann mikla stuðning sem við höfum fundið fyrir í samfélaginu á þessum miklu umbrotatímum. Það eru ótal spurningar sem koma fram á hverjum einasta íbúafundi sem haldinn er og þeir eru margir. Það er reynt að halda upplýsingagjöfinni eins mikilli og hægt er. Spurningarnar snúast mjög margar um kostnað og hver og ein spurning er send beint í viðeigandi pípur. Hér fáum við svör og viðbrögð Alþingis við ákveðnum þáttum málsins.

Ég ætla að leyfa mér að nota tækifærið, fyrst ráðherrann er í húsi og ég næ taki á honum í ræðustólnum, aldrei þessu vant, að spyrja hann nokkurra spurninga. Eðlilega eru bændur á svæðinu orðnir talsvert þreyttir. Álagið er búið að vera gríðarlega mikið á þeim, sem og aðilum í ferðaþjónustunni. Við skulum halda okkur við bændurna.

Eitt af mikilvægustu verkefnunum sem fyrir dyrum standa núna er að útvega afleysingu fyrir bændur, þannig að þeir geti tekið sér smá frí og pásu og hvílst. Þá fellur til kostnaður sem felst í launum viðeigandi starfsmanna. Jafnframt hefur sveitarstjórn Rangárþings eystra ákveðið að beita sér fyrir því að í boði verði íbúðarhúsnæði fyrir fjölskyldur á svæðinu svo þær geti farið tímabundið út af öskusvæðinu til hvíldar. Sveitarfélagið sjálft hefur, í trausti yfirlýsingar ráðamanna þjóðarinnar, ákveðið að fara af stað með verkefni í því trausti að það verði komið til móts við þennan kostnað. Það er mjög mikilvægt, af því kerfið okkar er nú einfaldlega þannig að það er ekki fullkomið og það þarf að bregðast hratt við í svona aðstæðum. Sveitarfélögin á svæðinu hafa ákveðið að taka að sér verkefni sem eru óumflýjanleg, eins og þessi verkefni.

Hefur ráðherrann upplýsingar um það hvort þessi verkefni verði styrkt af ríkinu?