138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[16:45]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir svarið og mig langar að nota tækifærið til að hrósa honum fyrir þá athygli sem hann hefur sýnt íbúum á þessum svæðum, aðallega þá vestursvæðinu undir Eyjafjöllum og í Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi. Það er afskaplega mikilvægt að ráðamenn þjóðarinnar láti sig þetta mál varða, þetta eru mestu hamfarir sem orðið hafa í lengri tíma á Íslandi og fræðingar segja að gosið sé nú orðið stærra en Heklugosið 1947. Það er því enginn smáatburður sem þarna hefur átt sér stað.

Mig langar bara að ítreka að heimamenn þarna eystra treysta því að orð ráðamanna standi og ég veit að það er mjög góður hugur hjá þingmönnum allra flokka og eins beggja ríkisstjórnarflokkanna til þess að halda eins vel á þessum málum og hægt er. Engu að síður langar mig að vekja athygli á því að það eru sveitarfélögin sem leiða og fara í framkvæmdir sem heyra kannski ekki undir neinn sérstakan en verður að fara strax í. Ég treysti því að þessum kostnaði verði mætt og tel að það verði allt til fyrirmyndar.

Síðan langar mig að nota lokasekúndurnar mínar til þess að hrósa öllum þeim viðbragðsaðilum sem komið hafa að þessu máli. Bændasamtökin hafa staðið sig með eindæmum vel. Við þurfum kannski að fara aðeins betur yfir það hvernig við ætlum að koma til móts við aðra aðila, þ.e. þá sem eru með ferðaþjónustusvæðin o.s.frv. og hafa orðið fyrir gríðarlegu rekstrartapi. Þá horfum við jafnframt til þeirra fordæma sem eru fyrir hendi varðandi náttúruhamfarir.

Að öðru leyti hlakka ég til að sjá ráðherrana á íbúafundinum á Heimalandi í kvöld.