138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[16:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga frá hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég vil lýsa því yfir að ég er mjög hlynntur þessu frumvarpi og ég tel að það sé brýnt að gera þær breytingar sem þar er lagt til. Hins vegar hef ég athugasemd við það að frumvarpið hafi verið samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu fyrir beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Ég hefði talið eðlilegt að nefndin semdi þetta frumvarp sjálf fyrst hún flytur það í ljósi þess að menn vilja aukinn veg Alþingis og sá sem semur frumvarp hefur mest um það að segja. Ég hef margoft rætt það.

Síðan verð ég að segja að nú eru komnir einn mánuður og einn dagur síðan ég ræddi við varaformann hv. nefndar, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, þar sem ég spurði hana hvort gerð hafi verið neyðaráætlun vegna öskufalls, með leyfi frú forseta:

„… sem hugsanlega eyðileggur blómleg landbúnaðarhéruð, þannig að búpeningur drepst, heyskapur bregst, skera þarf niður skepnur í stórum stíl eða flytja þær á brott og flytja þarf mikið magn af heyi og fóðri milli héraða og jafnvel erlendis frá um hugsanlega ófæra vegi og vélar sem ekki ganga í öskufalli.“

Þetta hefur ekki verið gert.

Ég var á ferð undir Eyjafjöllum, búinn að fara fjórum sinnum gegnum mökkinn. Það er ömurleg sýn sem við blasir. Það er mjög dapurlegt að líta á þessi búsældarlegu héruð sem ég hef nú oft horft til brosandi í sólinni. Ég get vel ímyndað mér að fólk geti ekki verið þarna mjög lengi í einu. Það þarf að komast út úr þessum mekki. Þess vegna tek ég undir þá áskorun að komið sé á einhverri afleysingaþjónustu þannig að menn geti losnað öðru hverju úr þessari prísund.

Hins vegar vil ég undirstrika að í öllu óláninu er það lán, þótt að það sé ekkert lán í sjálfu sér, að vindáttin skuli hafa verið slík sem hún hefur verið. Ef vindáttin hefði verið á þann veg að afréttir og mjög stór landbúnaðarhéruð eins og Ölfusið og Suðurlandið allt hefðu lagst undir ösku ætla ég nú ekki að segja hvar við værum stödd. Mér finnst að menn þurfi að vera undir það búnir því að það veit enginn hvernig vindátt á Íslandi er, það bara er þannig. Auðvitað vonar maður að gosið hætti bara helst fyrir kaffi í dag en það er nú ekkert útlit fyrir það og menn þurfa að vera undir alls konar hluti búnir, til dæmis varðandi heyskapinn, hvað verður um heyskap ef öskufall verður, heyskapur getur brugðist. Það er alveg á hreinu að hann gerir það undir Eyjafjöllum, það verður ekki heyjað þar þetta árið, það sá maður bara með því að líta yfir öskuna sem lá á túnunum.

Er hægt að beita á afrétti? Hvað gerist ef beitt er á afréttinn og síðan kemur aska og það þarf að smala í hasti? Þá þýðir ekkert að vera að bíða neitt voðalega lengi eftir því að ákveðið verði hvert á flytja fé og hross og annað slíkt. Það er líka eitthvað sem menn þurfa að vera undir búnir.

Mér finnst einhvern veginn að menn treysti á að það gerist ekkert voðalegt. Auðvitað vonar maður að allt gangi vel og kannski gerir það það líka en þetta þarf að gera. Það þarf að vera búið að skipuleggja flutning á sauðfé, að það sé ekki bara að frumkvæði viðkomandi bænda. Það þarf að vera tilbúið að flytja hross í einhverjum mæli eða reka þau milli landsfjórðunga. Þau geta farið á milli hólfa en ekki sauðfé. Það þarf jafnvel að opna hólf ef á þarf að halda eða gera einhverjar undantekningar þar, þar þurfa menn að vega og meta meiri hagsmuni fyrir minni o.s.frv. Þetta er hlutur sem þarf að vinna hratt að.

Svo þarf, eins og ég hef nú sagt, frú forseti, að kanna hvort það sé eitur í þessari ösku, hvort grasið sem heyjað er upp úr þessari ösku sé eitrað eða hvort hægt sé að gefa það skepnum.

Lambfé sem er nýborið verður ekki sett í hús hjá flestum bændum, þeir hafa ekki pláss til þess að stúka hverja lambá af. Og ef lömbin eru ekki stúkuð af tryggilega hlaupa þau um allt fjárhús og ærnar geldast. Reyndir bændur hafa sagt mér að þá sé nú alveg eins hægt að opna sláturhúsin ef menn geta ekki beitt lambfénu. Menn þurfa að vera tilbúnir með áætlun um að gera þetta allt saman hratt og vel. Nú er kominn rúmur mánuður síðan ég vakti fyrst athygli á þessu, ég sakna þess að menn séu ekki komnir með einhverja neyðaráætlun til að taka á þessum hlutum. Maður getur náttúrlega vonað það besta, að vindáttin haldist góð í þeim skilningi að sem flestir bændur sleppi, það er náttúrlega skelfilegt fyrir bændur sem lenda í því undir Eyjafjöllum, en ég bendi hér á það sem gæti gerst. Svo vonar maður auðvitað hið besta.