138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[17:06]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vandinn við þetta gos er auðvitað sá að við höfum ekki hugmynd um hvað það muni standa lengi. Kannski er besta ráðið að byrja nú þegar að vinda bráðan bug að því að forða búfé af svæðunum og gera ráð fyrir því að þetta muni standa lengi. Sennilega eru það einu skynsamlegu viðbrögðin úr því sem komið er.

Eins og ég sagði deili ég þessum áhyggjum með hv. þingmanni. Ég geri fastlega ráð fyrir því, þótt ég sé ekki efnafræðingur og hafi ekki sjálf tekið sýni þarna, að askan sé eitruð. Það er þekkt að gjóska og gosaska valda sjúkdómum í búpeningi og nóg eru nú óþægindin af því sem þarna á sér stað. Ég held að það sé ekki seinna vænna fyrir viðbragðsaðila og Bændasamtökin að fara að vinna bráðan bug að því að koma búfé undan. Ég veit ekki hvort það þarf forgöngu Alþingis um slíkt, ég er ekki alveg sannfærð um það, en a.m.k. erum við sammála um að eitthvað þarf að gera.