138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

Bjargráðasjóður og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

616. mál
[17:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd gerir að sjálfsögðu ekkert í framkvæmdum en það kann að vera að setja þurfi einhvern lagaramma um þær aðgerðir sem menn ætla að grípa til, t.d. að slaka á reglum um flutning milli hólfa ef menn telja það skynsamlegt. Það gæti verið hlutverk nefndarinnar. Síðan þarf náttúrlega að ræða fjárveitingar til slíkra aðgerða, því þær geta verið kostnaðarsamar og spurning hvort bændur eigi að bera þær sjálfir eða fjárveitingavaldið, þ.e. Alþingi.

Þetta gæti Alþingi gert. Síðan eru það ráðuneytið og hæstv. ráðherra sem bera ábyrgð á því að þessar neyðarráðstafanir fari í gang og hvernig þær eru framkvæmdar. Það er hinn endinn. Ég held að nefndin þurfi að vinna vel með Bændasamtökunum, einstökum bændum og ráðuneytinu að því að breyta þeim lögum sem þarf að breyta ef þess skyldi gerast þörf.