138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. viðskiptanefndar um frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi. Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu og mun ég nú gera grein fyrir þeim helstu.

Nefndinni bárust athugasemdir þess efnis að svigrúm vátryggingafélaga til að endurtryggja frumtryggingaráhættu í þriðja ríki væru of takmarkaðar þar sem liggja þyrfti fyrir ákveðinn samstarfssamningur milli Fjármálaeftirlitsins og heimaríkis þess sem veitir þjónustuna. Nefndin leggur til breytingu á 5. gr. í þeim tilgangi að draga úr kvöð á Fjármálaeftirlitið til sjálfstæðrar samningsgerðar enda er það í reynd nefnd eftirlitsaðila á vátrygginga- og eftirlaunasviði Evrópusambandsins sem gerir slíka samninga.

Lagðar eru til nokkrar breytingar á 54. gr. um stjórn vátryggingafélags. Lögð er til breyting á 3. mgr. í þá veru að stjórnarmenn geti jafnframt verið búsettir í ríki sem er aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni OECD. Einnig er lagt til að þeir komi ekki til greina sem stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar sem hafa á síðustu tíu árum hlotið dóm í tengslum við refsiverðan verknað. Nefndin hróflar ekki við þeim tímamörkum sem gilda um gjaldþrotaskipti.

Jafnframt er lagt til að 5. og 6. mgr. 54. gr. verði breytt svo að samræmist betur sambærilegu ákvæði í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Ákvæðið bannar stjórnarmönnum vátryggingafélags að sitja í stjórn annars vátryggingafélags eða félags í nánum tengslum við það. Starfsmönnum er auk þess óheimilt að sitja í stjórn viðkomandi vátryggingafélags.

Í samræmi við frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki leggur meiri hlutinn til að á eftir 54. gr. bætist ný grein. Er þar kveðið á um að Fjármálaeftirlitið setji reglur um það hvernig vátryggingafélögum verði heimilt að veita starfsmönnum kauprétt eða kaupaukagreiðslur. Er jafnframt gert ráð fyrir því í ákvæðinu að áunnin réttindi starfsmanna samkvæmt kaupaukakerfi skuli færð til gjalda á hverju ári eftir því sem reglur um reikningsskil heimila og skal gerð grein fyrir þeim í skýringum með ársreikningi. Þá er mælt fyrir um takmarkanir á heimildum vátryggingafélaga til að gera starfslokasamning við framkvæmdastjóra eða annan lykilstarfsmann nema hagnaður hafi verið af rekstri félagsins samfellt síðustu þrjú ár starfstíma hans. Í breytingartillögu nefndarinnar er Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að setja reglur um kaupaukakerfi en í þeim skal hafa tilmæli Evrópusambandsins til hliðsjónar sem og aðrar reglur samþykktar alþjóðlega eða viðurkenndar.

Helstu atriði tilmæla Evrópusambandsins um starfskjarastefnu í fjármálageiranum eru m.a. þær að aðildarríki setji reglur sem tryggi að starfskjarastefna sé í samræmi við og stuðli að traustri og skilvirkri áhættustjórnun en hvetji ekki til of mikillar áhættutöku. Þá skuli vera ákveðið jafnvægi milli fastra launa og bónusgreiðslna og mælt fyrir um að aðildarríkin eigi að tryggja að starfskjarastefna fjármálastofnana setji hámark á bónusgreiðslur. Einnig skulu mælingar á frammistöðu ná til lengri tíma og kveðið er á um að fjármálastofnanir eigi að geta krafist endurgreiðslu á bónusgreiðslum ef í ljós kemur að þær hafi verið byggðar á röngum upplýsingum. Starfslokasamningar skulu samkvæmt tilmælunum tengjast frammistöðu sem hefur náðst á lengri tíma, og í þeim má ekki felast umbun fyrir mistök og skal hún uppfærð reglulega. Upplýsa skal hluthafa um starfskjarastefnu og skulu eftirlitsaðilar á fjármálamarkaði yfirfara og leggja mat á starfskjarastefnu fjármálastofnana til að tryggja að stefnan sé í samræmi við skilvirka áhættustjórnun.

Hv. viðskiptanefnd þótti viðeigandi og rétt að setja þessi tilmæli Evrópusambandsins inn í breytingartillögu við frumvarp um vátryggingastarfsemi.

Í breytingartillögu við 56. gr. er lagt til að skylt verði að skipta um endurskoðunarfélag á fimm ára fresti en ekki aðeins endurskoðanda. Þá leggur nefndin til viðbót þess efnis að endurskoðendur og endurskoðunarfélög skuli kjörin á aðalfundi til fimm ára og að álit endurskoðendaráðs þurfi að liggja fyrir áður en tekin verður ákvörðun um að víkja endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi frá. Við þessa grein er ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar svo:

„Þrátt fyrir 56. gr. laga þessara er endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi sem veitt hefur vátryggingafélagi þjónustu sína í þrjú ár eða skemur fyrir gildistöku laga þessara heimilt að veita því félagi þjónustu í fimm ár frá gildistöku. Hafi þjónusta verið veitt lengur en þrjú ár fyrir gildistöku laga þessara er endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi heimilt að veita vátryggingafélagi þjónustu í þrjú ár eftir gildistöku laga þessara.“

Nefndin leggur til að 65. gr. frumvarpsins falli brott. Í greininni er mælt fyrir um heimild Fjármálaeftirlitsins til að birta opinberlega niðurstöður í málum og athugunum. Ákvæði sama efnis var lögfest árið 2009 í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Við þá lagabreytingu féll brott sambærilegt ákvæði í lögum um verðbréfaviðskipti. Talið er nægjanlegt að hafa ákvæði þessa efnis á einum stað, þ.e. í lögum sem gilda um Fjármálaeftirlitið.

Auk ofangreindra breytingartillagna við frumvarpið þótti meiri hlutanum ástæða til að gera grein fyrir skoðun sinni á eftirfarandi atriðum:

Í frumvarpinu er lagt til í 2. gr. að íslensk vátryggingafélög skuli rekin sem hlutafélög. Verði frumvarpið að lögum fellur því brott heimild gildandi laga til að reka vátryggingafélag sem gagnkvæmt félag. Engin gagnkvæm vátryggingafélög eru starfandi hér á landi og engar óskir hafa komið fram um stofnun slíkra félaga. Reglur um gjaldþol og afnám einkaréttar bátaábyrgðarfélaganna á að veita þjónustu á tilteknu markaðssvæði höfðu í för með sér erfiðleika fyrir bátaábyrgðarfélög hér á landi og hættu félögin starfsemi í kjölfarið. Gagnkvæm vátryggingafélög eiga í erfiðleikum ef þau þurfa að bæta fjárhagsstöðu sína en þau geta ekki líkt og hlutafélög aukið eigið fé félagsins með útgáfu nýrra hlutabréfa. Með afnámi heimildar til að stofnsetja gagnkvæm vátryggingafélög er hins vegar ekki verið að skerða réttindi t.d. félagasamtaka til þess að gefa félagsmönnum sínum kost á að standa að stofnun vátryggingafélags. Hins vegar er ekki talin ástæða til að viðhalda í lögum ónýttum heimildum enda ákveðnir vankantar á forminu. Meiri hlutinn telur brýnt að löggjöf um vátryggingastarfsemi verði endurskoðuð komi í ljós að áhugi sé fyrir því að koma á fót gagnkvæmum vátryggingafélögum.

Í frumvarpinu er kveðið á um að vátryggingastarfsemi skuli rekin í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur í vátryggingaviðskiptum og með hag vátryggingartaka og vátryggðra fyrir augum. Neytendastofa hefur eftirlit með hvers konar atvinnustarfsemi sem tekur til samninga, skilmála og athafna sem hafa eða ætlað er að hafa áhrif hér á landi. Rætt var um það við umfjöllun málsins í nefndinni að skörun gæti orðið milli annars vegar hlutverks Neytendastofu og hins vegar Fjármálaeftirlitsins hvað þetta snertir. Meiri hlutinn telur mikilvægt að hlutverk og ábyrgð stofnana sé skýr og beinir því til viðkomandi ráðherra að huga að því að eyða óvissu ef hún er til staðar.

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að þrátt fyrir að lánastofnanir þyrftu heimild Fjármálaeftirlitsins til að eiga virka eignarhluti í vátryggingafélögum jókst hættan á hagsmunaárekstrum hlutrænt séð í rekstri þeirra. Hætta var á að samspil yrði milli ákvarðana um ávöxtun bótasjóða vátryggingafélaga og ákvarðana um viðskipti af hálfu lánastofnana og/eða eigenda þeirra. Var þetta talið til þess fallið að stuðla að aukinni kerfisáhættu og hættu á keðjuverkun í fjármálakerfi landsins. Farið verður yfir þetta atriði seinna eins og mörg önnur og er ljóst að þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eru aðeins fyrsta skrefið í endurskoðun reglna á sviði fjármálamarkaðar. Meiri hlutinn telur brýnt að unnin verði pólitísk stefnumótun varðandi framtíðarskipulag fjármálamarkaðarins á Íslandi m.a. í ljósi niðurstaðna rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir falls bankanna.

Frú forseti. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir meirihlutaálitið rita Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Auður Lilja Erlingsdóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir.